Í hverri viku velur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góðu gengi að fagna í vikunni og hina sem hafa átt betri vikur. Í þessari viku er það Eric Hamrén, landsliðsþjálfari í knattspyrnu sem fyllir fyrrnefnda dálkinn en Stefán Pálsson sagnfræðingur fær hinn síður eftirsótta.
Góð vika: Eric Hamrén, landsliðsþjálfari í knattspyrnu
Svíinn geðþekki fór brösuglega af stað með gulldrengi íslensku þjóðarinnar. Liðið virkaði þungt og áhugalítið í fyrstu leikjunum og þrátt fyrir sigur gegn Andorra í fyrsta leik undankeppni EM fjölgaði stöðugt í hópi efasemdarmanna. Staðan var orðin þannig að ef leikirnir gegn Albaníu og Tyrklandi hefðu tapast væri honum varla stætt í starfi lengur.
En Hamrén galdraði fram magnaða frammistöðu í þessum leikjum og Hamrén-vagninn er óðum að fyllast. Leitun er að manni sem hefur tekist að snúa almenningsálitinu sér í vil á jafnskömmum tíma. Kemur aðeins Ólafur Ragnar Grímsson eftir Icesave-málið upp í hugann.
Slæm vika: Stefán Pálsson sagnfræðingur
Síðustu dagar búnir að vera þjóðinni afar hagfelldir og kandídatarnir fáir. Sigurvíman er enn að renna af landanum eftir sigurinn gegn Tyrkjum og sólin skín sem aldrei fyrr. Nokkrir íþróttafréttamenn fengu að kenna á reiðum Tyrkjum á samfélagsmiðlum en þeir fengu þó að eiga síðasta hláturinn.
Af einskærri meinfýsni útnefnum við hins vegar Stefán Pálsson, helsta talsmann hernaðarandstæðinga og VG-liða. Opinber heimsókn Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, ein og sér var vafalaust þyrnir í augum Stefáns en að hafa þurft að horfa upp á formann VG taka á móti honum með virktum hlýtur að hafa sviðið.