Ingólfur Ágústsson og Sigríður Etna Marinósdóttir voru búin að vera saman í sjö ár þegar þau ákváðu að láta pússa sig saman þann 12. júlí árið 2014 á Tálknafirði. Helgina fyrir brúðkaupið var Ingólfur steggjaður af vinum og fjölskyldumeðlimum, steggjun sem átti svo sannarlega eftir að draga dilk á eftir sér.
„Ég var nánast allsber allan daginn og meðal annars hent ofan í sjóinn í Reykjavík tvisvar sinnum. Strax eftir helgi fór ég að finna fyrir eymslum í hálsinum en var ekkert að spá mikið í það enda nóg að gera bæði í vinnu og að undirbúa brúðkaup sem átti að halda í um fimm hundruð kílómetra fjarlægð,“ segir Ingólfur, sem varð þó örlítið áhyggjufullur þegar nær dró stóra deginum.
„Á fimmtudagsmorgni byrjuðum við að græja brúðkaupssalinn og ég fann að mér leið ekki vel. Ég var að reyna að láta lítið fyrir því fara til að gera brúðina ekki áhyggjufulla. Svo var ég að sækja eitthvað inn í áhaldageymslu og var alveg bugaður og lagðist á dýnu og sofnaði. Eftir einhvern tíma skildi konan mín ekkert í hvar ég gæti verið. Svo var henni tilkynnt að ég væri sofandi inn í áhaldageymslu. Hún kom og vakti mig og botnaði ekkert í þessari hegðun hjá mér. Þá sagði ég henni að ég væri orðinn slappur og að ég héldi að ég væri kominn með streptókokka, en ég hafði fengið þá áður,“ segir Ingólfur sem fór til læknis á Patreksfirði í kjölfarið.
„Læknirinn var fljótur að greina mig og skrifaði upp á sterk sýklalyf og lét mig taka þrefaldan skammt. Hann sagði mér að ég ætti að hvíla mig fram að brúðkaupi, reyna að vera sem minnst með konunni, til að smita hana ekki, og alls ekki kyssa hana.“
Í móki nóttina fyrir brúðkaup
Daginn eftir, á föstudeginum, streymdu fjölskyldumeðlimir og vinir á Tálknafjörð, en Ingólfur neyddist til að láta lítið fyrir sér fara. „Ég gat ekki tekið á móti þeim eða aðstoðað við að gera brúðkaupið klárt, lá bara hundveikur uppi í rúmi og hálfvankaður af lyfjunum. Nóttina fyrir brúðkaupið var ég víst bara í einhverju móki, svitnaði svakalega og konan gat ekki sofið af áhyggjum. Hún var svo smeyk um að það þyrfti að fresta brúðkaupinu og allir hefðu þá komið í fýluferð vestur. Gaman að segja frá því að hún svaf á milli hjá foreldrum sínum þessa nótt. Þau reyndu að fullvissa óléttu, stressuðu stelpuna sína um að allt yrði í lagi og að brúðkaupsdagurinn yrði góður,“ segir Ingólfur og brosir þegar hann rifjar upp þessa daga.
Þegar sjálfur brúðkaupsdagurinn rann svo upp var Ingólfur enn slappur, en eins og fyrir örlög breyttist eitthvað í athöfninni sem var töfrum líkast.
„Við hjónin komum síðust í kirkjuna og gengum saman inn kirkjugólfið. Eins væmið og það hljómar þá losnaði um allt í hálsinum á sama andartaki og dyrnar inn í kirkjuna opnuðust og við hjónin gengum inn gólfið. Dagurinn var skemmtilegur og góður svo ég tók ekki eftir neinum óþægindum, nema ég var ekki með mikla matarlyst,“ segir Ingólfur, sem er enn leiður yfir því að hafa ekki getað tekið virkan þátt í þessum mikilvæga degi sökum veikindanna.
Leiðinlegt að taka ekki þátt í undirbúningnum
„Brúðkaupsdagurinn heppnaðist vel þrátt fyrir veikindin og ég er þakklátur fyrir það. En mér finnst enn þá leiðinlegt að hafa ekki geta tekið þátt í undirbúningnum. Salurinn var orðinn alveg klár snemma á föstudegi, því við hjónin ætluðum að eyða restinni af föstudeginum í að taka á móti fjölskyldu og vinum. En við gerðum það ekki og það var pínu súrt. Það voru margir duglegir að taka Snapchat og senda okkur og fannst okkur það mjög skemmtilegt. Að sjá vini okkar sem þekktust ekki fyrir brúðkaupið vera að hittast á tjaldstæðinu og þess háttar,“ segir hann. Það stendur svo ekki á svörunum þegar hann er beðinn um ráð fyrir tilvonandi brúðhjón.
„Númer eitt, tvö og þrjú ráðlegg ég fólki að steggja og gæsa ekki brúðhjón viku fyrir brúðkaup. Númer fjögur, ef þið eruð eitthvað slöpp, kíkið strax til læknis! Númer fimm, reynið að vera skipulögð og tímalega í undirbúningnum, það var mjög gott að vera búinn að gera allt klárt snemma á föstudeginum. Númer sex, hafið daginn ykkar nákvæmlega eins og þið viljið hafa hann. Ekki efast um ákvarðanir sem þið takið tengdar brúðkaupinu. Bjóðið bara þeim sem þið viljið, óháð því sem „búist er við af manni“. Það er æðisleg tilfinning að ganga inn kirkjugólfið og vera umkringdur fólki sem manni þykir vænt um. Veljið matinn, drykkina, tónlistina og fleira nákvæmlega eins og þið viljið hafa það. Þetta er ykkar dagur.“
Þetta viðtal er hluti af stærra efni í nýjasta tölublaði Mannlífs um óvæntar uppákomur á brúðkaupsdaginn. Smelltu hér til að lesa Mannlíf á netinu.
Myndir / Sólný Pálsdóttir