Félagsmenn verkalýðsfélagsins Eflingar á Suðurlandi eru á flótta út úr félaginu ef marka má Halldóru Sigríði Sveinsdóttur, formann stéttarfélagsins Bárunnar á Suðurlandi. „Það eru glóandi línur hér,“ sagði hún við vefmiðilinn Vísi. Hún upplýsti að margir tugir félagsmanna Eflingar hefðu haft samband í því skyni að færa sig yfir í félag sem hefur sótt afturvirkar kjarabætur fyrir sitt fólk.
Gríðarleg ólga er á meðal félaga Eflingar eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, sleit viðræðum við Samtök atvinnulífsins og lýsti yfir vilja til að fara í skæruverkföll. Formaðurinn hafði áður lýsti því yfir að eðlileg væri að starfsfólk á Höfuðborgarsvæðinu hefði hærri laun en gerist á landsbyggðinni. Þetta hefur lagst illa í það fólk sem býr úti á landi.
Innan stjórnar Eflingar er ósætti vegna stefnu formannsins. Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, er andvíg verkfallsboðun og hefur sagt að hún vilji teka sama samning og Starfsgreinasambandið gerði og hefja þegar vinnu við nýjan samning til lengri tíma. Sólveig Anna hefur úthúðað henni vegna þessa og líkt við Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
„Það er ekkert annað en ógeðslegt að verða vitni að þessari firrtu og skammarlegu hegðun,“ skrifaði Sólveig Anna á Facebook.
Ólöf Helga lýsti í hlaðvarpi Mannlífs hvernig formaðurinn hefur slaufað henni og ýmist hundsað eða formælt henni. Engin leið er að spá fyrir um framvinduna í kjaradeilunni. Þó blasir við að Sólveig Anna er einangruð innan verkalýðshreyfingarinnar og í úlfakreppu vegna stöðunnar í kjaradeilunni.