Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri er ekki mannmörg, en félagar hennar tókust flestir á við sitt stærsta verkefni þegar snjóflóð féllu þar í janúar.
Eftir flóðin hafði einstaklingur samband við sveitina og spurði hvort hana vanhagaði um einhver tæki sem myndu nýtast vel í starfinu.
Eins og kemur fram í færslu sveitarinnar á Facebook stækkaði fyrirspurnin og áður en meðlimir vissu af var Sæbjörg komin með tvö Arctic cat Alterra 1000cc fjórhjól í hendurnar. Annað hjólið og tækjabúnaður á þau bæði eru gjöf frá Hinriki Kristjánssyni, Ingibjörgu Kristjánsdóttur og þeirra börnum.

„Svona gjöf er aldrei hægt að þakka nægilega vel fyrir en við erum þeim ævinlega þakklát og mun þetta bæta starf sveitarinnar til muna.“