Það er allsendis óljóst hvenær íslensku ferðaskrifstofurnar byrja að bjóða Íslendingum upp á hinar vinsælu sólalandaferðir til Spánar. Bæði Ferðskrifstofa Íslands og Vita hafa auglýst að þeir ætli að hefja leik í júlí en hvergi hafa sést auglýstar dagsetningar. Nýverið auglýstu Heimsferðir ferðir til Tenerife og Krítar í september.
Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri Vita, staðfestir að ferðaskrifstofan hafi haft fullan hug á að hefja ferðir til Spánar í næsta mánuði en að beðið sé átekta með dagsetningar þar til opnun landamæranna kemur betur í ljóst. „Við stefnum á að byrja ferðir til Tenerife og Alicante í júlí en það verður að liggja betur fyrir hvernig tekið er á móti Íslendingum á Spáni og ekki síst í Keflavík við heimkomu. Þannig að við bíðum með ákvörðun um dagsetningar þar til málin skýrast,“ segir Þráinn.
Aðspurður um hvort skimun farþega á Keflavíkurflugvelli, sem íslensk stjórnvöld hafa boðað, komi til með að hafa áhrif telur Þráinn svo vera. „Ef það er þannig að Íslendingar þurfi að fara í skimun og greiða töluverða fjármuni fyrir, ef til dæmis fjölskylda er að ferðast saman, þá held ég að Íslendingar muni almennt ekki ferðast í miklu mæli fyrr en því tímabili lýkur og ferðafrelsi sé orðið nokkuð óheft.“
Íslenskar ferðaskrifstofur hafa verið í miklum vanda í COVID-faraldrinum þar sem fella hefur þurfti niður gífurlegan fjölda ferða og farþegar krafist endurgreiðslna í mörgum tilfellum. Þráinn segir endurgreiðslur hafa gengið vel og sala ferða til Spánar í vetur gangi nokkuð vel, miðað við aðstæður. „Frá því í byrjun apríl höfum við endurgreitt öllum viðskiptavinum sem óskað hafa eftir því. Meirihlutinn hefur samt kosið að færa ferðirnar á aðra dagsetningu eða fengið inneign á aðra ferð. Við höfum verið með ferðir til Tenerife og Kanarí í sölu síðan í mars og gengur salan nokkuð vel og er t.d. jóla- og áramótaferðin til Tenerife löngu uppseld. Einnig settum við í sölu fyrir um mánuði síðan, ferðir til Tenerife og Alicante sumarið 2021. En við fengum fjölda fyrirspurna frá viðskiptavinum sem áttu ferðir í vor og sumar og vildu færa ferðirnar um ár,“ segir Þráinn.