Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
9.5 C
Reykjavik

Fetaði veg jákvæðninnar til að takast á við áfallið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dugnaðarforkurinn, fjölskyldumaðurinn og fyrrverandi körfuboltaþjálfarinn Ágúst H. Guðmundsson greindist með MND-sjúkdóminn fyrir tæpu ári síðan. Þessu verkefni hefur hann tekið af æðruleysi og heldur fast í jákvæðnina. Yfir 300 manns ætla að hlaupa í nafni Ágústs í Reykjavíkurmaraþoninu og segir hann ólýsanlegt að vita af þessum stuðningi.

Ágúst og Guðrún eiginkona hans.

Ágúst H. Guðmundsson var nýorðinn fimmtugur þegar hann greindist með hreyfitaugahrörnun, sem í daglegu tali er þekkt sem MND-sjúkdómurinn. Þessi glæsilegi maður sem alla tíð hafði verið heilsuhraustur segist fljótt hafa valið að fara leið jákvæðninnar þegar greiningin lá fyrir, þótt sjúkdómurinn væri ólæknandi. „Ég held að ég hafi undanfarið ár hlegið meira en nokkru sinni, langt yfir landsmeðaltali og nýt þannig dagsins. Maður hefur val um að vera jákvæður eða ekki,“ segir Ágúst.

Yfir 300 manns ætla að hlaupa í nafni Ágústs í Reykjavíkurmaraþoninu um helgina og kemur það þeim sem þekkja hann ekki á óvart. Þegar hefur þessi rúmlega 300 manna hlaupahópur safnað yfir fimm milljónum króna fyrir MND-félagið sem er hæsta upphæðin sem hefur safnast með þessum hætti fyrir félagið. „Það er ólýsanlegt að vita af þessum stuðningi. Vonandi er einhver tenging á milli þessa fjölda fólks við framkomu mína við það í gegnum árin. Ég tel að við öll eigum að leggja inn eins mikið af náungakærleik og frekast er kostur á okkar lífsleið því að við fáum það svo margfalt til baka þegar eitthvað bjátar á,“ bætir Ágúst við.

Gardínurnar dregnar frá

Aðeins voru þrír dagar liðnir frá fimmtugsafmæli Akureyringsins Ágústs þegar hann var greindur með MND-sjúkdóminn á Landspítalanum. Guðrún Gísladóttir, eiginkona hans, var þá stödd úti í Bandaríkjunum hjá Ásgerði Jönu, dóttur þeirra, en hún dvaldi þar við nám. „Ég var því einn í Reykjavík á Landspítalanum þegar ég fékk þessa greiningu. Það voru þung skref að stíga frá byggingunni út í bíl þar sem ég sat í dágóða stund og hreinlega grét einn með sjálfum mér. Ég hringdi svo í vin minn, Axel Björnsson, sem kom og studdi mig þessa fyrstu tíma eftir greiningu. Þetta var erfitt,“ segir Ágúst.

En Ágúst ákvað að nýta veganestið sem hann hafði í gegnum árin gefið drengjum sem hann hefur þjálfað í körfubolta á Akureyri; hann fetaði veg jákvæðninnar til að takast á við áfallið. „Þótt vissulega sé þetta ekki auðvelt þá hjálpar það ekki mér og mínum aðstandendum að hafa allt á hornum sér. Því miður er það þannig að allt of margir sem greinast með MND fara þá leið að leggjast upp í rúm og draga gardínurnar fyrir og þá með skelfilegum afleiðingum.“

„Ég tel að við öll eigum að leggja inn eins mikið af náungakærleik og frekast er kostur á okkar lífsleið því að við fáum það svo margfalt til baka þegar eitthvað bjátar á.“

Hefur notið lífsins

- Auglýsing -

Ágúst er fjölskyldumaður mikill og hefur ávallt varið miklum tíma með Guðrúnu eiginkonu sinni og börnunum þremur, Ásgerði Jönu, 21 árs, Júlíusi Orra, 16 ára, og Berglindi Evu sem verður níu ára í haust. Frá því að Ágúst var greindur með MND-sjúkdóminn hefur hann ferðast mikið. „Í dag get ég ekki verið annað en þakklátur enda nýt ég lífsins á alla kanta með samferðafólki mínu.“

Ágúst nýtur nú góðs af sterku sambandi sem hann hefur ræktað við marga í kringum sig. „Í mínum heimabæ, Akureyri, vita flestallir af þessum sjúkdómi sem er mikill léttir fyrir mig. Þá sérstaklega af því ég er orðinn illskiljanlegur en einnig vegna þess að ég get allt í einu farið að hágráta ef fólk sýnir mér velvild eða t.d. ég hitti einhvern í fyrsta skipti eftir greiningu. Það eru ein einkennin sem mér þykja hvað óþægilegust. Fólk sýnir þessu skilning og kippir sér ekki upp við þetta og af því að ég hef reynt að halda þessu á lofti.“

Frá því að Ágúst var greindur með MND-sjúkdóminn hefur hann ferðast mikið. Hér er hann á ferðalagi með Guðrúnu eiginkonu sinni og börnunum þremur, Ásgerði Jönu, 21 árs, Júlíusi Orra, 16 ára, og Berglindi Evu sem verður níu ára í haust.

Tvö meistaralið
Ágúst hefur haft áhrif á marga í gegnum körfuboltann þar sem hann hefur náð framúrskarandi árangri sem þjálfari hjá Þór Akureyri. Eftir að hafa þjálfað í afleysingum til að byrja með, tók hann við fyrsta flokknum sínum árið 1993. „Ég valdi mér flokk sem hafði verið frekar baldinn en fjölmennur.  Virkir strákar en afskaplega lélegir í körfubolta, það verður að segjast. Þeir voru með lélegustu liðum landsins í svokölluðum D-riðli. Ég sá tækifærið í krafti og fjölda drengjanna. Ætlaði að hrista duglega upp í þeim og átti von á að margir myndu hætta en það þveröfuga gerðist, það stórfjölgaði í hópnum,“ rifjar Ágúst upp.

- Auglýsing -

Flokkurinn tók stórstígum framförum og varð á endanum Íslandsmeistari. Síðar urðu þessir drengir að kjölfestu meistaraflokks Þórs undir stjórn Ágústs og unnu meðal annars sjö leiki í röð í efstu deild.
Ágúst hætti þjálfun um skeið en ákvað að taka þjálfaraspjaldið af hillunni þegar Júlíus Orri, sonur hans, fékk áhuga á íþróttinni. Júlíus þótti efnilegur knattspyrnumaður og segist Ágúst hafa vonað að hann yrði áfram í fótboltanum í KA. „Líklega hefur áhugi minn smitað guttann en ég ýtti körfunni aldrei að honum. Þegar hann var svo staðráðinn í því að æfa körfu fór ég, liggur við tilneyddur, að þjálfa aftur. Mér fannst erfitt að horfa upp á starfið líkt og það var.“

Aftur byggði Ágúst upp meistaralið. Júlíus Orri og jafnaldrar hans sem fæddir eru árið 2001, hafa bæði orðið Íslands- og bikarmeistarar hér á landi, auk þess að vinna Scania Cup; sterkasta mót Norðurlandanna.

Ágúst H. Guðmundsson hefur haft áhrif á marga í gegnum körfuboltann og náð framúrskarandi árangri sem þjálfari hjá Þór Akureyri. Hér er hann með Tryggva Hlinasyni körfuboltamanni úr Bárðardal.

Hugsanlega með NBA-leikmann í höndunum

Meðal þess sem Ágúst hefur gert undanfarið var að fara til New York, að fylgja Bárðdælingnum Tryggva Hlinasyni, sem var boðið að taka þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar. Ágúst var hluti af teyminu sem tók á móti Tryggva hjá Þórsurum, en þessi tröllvaxni ungi maður úr Bárðardal er tæplega 220 sentimetrar á hæð og sterklega byggður. Hjá Þór æfði Tryggvi undir stjórn Bjarka Oddssonar og fóru þeir félagar strax í að hafa samband við forsvarsmenn Körfuknattleikssambandsins, enda ekki oft sem svona skrokkar sjást hér á parkettum íslenskra íþróttahúsa. Tryggvi samdi tvítugur við Spánarmeistarana Valencia og mun á næsta ári leika með öðru liði í spænsku úrvalsdeildinni.

Stuðningurinn mikilvægur

Margir fyrrum lærisveinar Ágústs úr körfuboltanum ætla sér að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu, auk fleiri samferðamanna sem þessi duglegi maður sem fæddist á Patreksfirði hefur haft áhrif á í gegnum tíðina. Hópurinn í kringum Ágúst safnar fyrir MND-félagið og segir Ágúst fjármunina fara á góðan stað. „Þetta skiptir hreinlega öllu máli. Þegar fólk greinist með MND þá ekki bara dettur sjúklingurinn af launaskrá heldur er viðbúið að maki viðkomandi þurfi að hætta vinnu líka þar sem þörf til aðstoðar verður mikil. Hlutfallslega fáir greinast með þennan illvíga sjúkdóm og því verður að segjast að heilbrigðisyfirvöld leggja lítið í málaflokkinn. MND-félagið greiðir því fyrir lækna og hjúkrunarfólk á ráðstefnur erlendis svo heilbrigðiskerfið sé með á nótunum og nái að létta undir með sjúklingum. Einnig niðurgreiðir félagið hjálpartæki og sýnir fjölskyldum stuðning þar sem við á. MND-félagið hefur gefið mér mikinn andlegan og félagslegan stuðning undir forystu Guðjóns Sigurðssonar,“ segir Ágúst.

Enn er hægt að heita á þá sem hlaupa í nafni Ágústs á vefsíðunni Hlaupastyrkur.is.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -