Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Finnbogi Þorkell: „Mín áfallasaga tengist bæði körlum og konum sem gerendum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Á svona vegferð eru mjög mörg smá „aha móment“. Ég held samt að jógakennaranámið sé einhver sú mesta andlega „þvottavél“ sem ég hef farið í gegnum. Það komst ró á öll kerfi líkamans og leiðin var nokkuð skýr eftir það.“

Mannlíf spjallaði við Finnboga Þorkel Jónsson, jógakennara og leikara, sem undanfarið hefur verið að kenna karlajóga og reka Gleðismiðjuna sem tekur að sér hópa m.a. í hláturjóga. Ásamt því starfar hann öðru hverju sem leikari, kennari og við smíðar.

Finnbogi hefur notað jógafræðin sem eina af sínum leiðum til að komast yfir áföll og áskoranir í lífinu.

Setja ekki merkimiða á fólk

Mér finnst hlýlegra að setja ekki merkimiða á fólk út frá starfstitli, tekjum eða stöðu.

Hver er Finnbogi? „Ég er manneskja sem leitast við að verða betri manneskja. Mér finnst hlýlegra að setja ekki merkimiða á fólk út frá starfstitli, tekjum eða stöðu, það segir ekkert um manneskjuna. Ég er að átta mig á minni leið og hún hefur mikið með manneskjuna og tengsl að gera.“

Finnbogi er lærður leikari, jógakennari, hláturjógaleiðbeinandi, með BA í ritlist og hefur unnið sem leiðsögumaður. Hann segist vera liðtækur í leiklistarkennslu, smíðavinnu og lóðahönnun.

- Auglýsing -

„Mín áfallasaga tengist bæði körlum og konum sem gerendum og er margþætt. Ég þurfti að finna réttu faglegu aðstoðina til að hjálpa mér að vinna úr mínum áföllum. Hún var ekki hjá vini, maka eða gúrú, heldur hjá hlutlausum faglegum aðila í rólegu og öruggu umhverfi. Ég leitaði mikið og prófaði margar leiðir til sjálfshjálpar, jógað, 12 sporin, HAM-meðferð o.fl. Ég lærði að hlúa að vegferðinni og að lífið gerist ekki bara einhvern veginn.

Það er nokkuð skýrt fyrir mér að mannlegir brestir eru oftast knúnir áfram af sársauka

Aðalatriðið er að halda áfram, þá sér maður það sem maður þarf að sjá, þegar maður er tilbúinn að sjá það.

Fyrir mér hefur EMDR-áfallameðferð virkað mjög vel. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt og en það virkar stórkostlega fyrir mig þegar ég vinn samviskusamlega mína EMDR-heimavinnu og iðka hugleiðslu og jóga með. Ég upplifi þetta ferli stundum eins og skurðaðgerð á sálinni eða tilfinningunum og ekki bara tal og aftur tal „meinið“. Gamli sársaukinn er erfiðastur en það er auðveldara að fara í gegnum hann en að marínerast áfram þótt manni finnist það samt alls ekki meðan á ferlinu stendur. Það er nokkuð skýrt fyrir mér að mannlegir brestir eru oftast knúnir áfram af sársauka.“

- Auglýsing -

Gríðarlega hamingjusamir vegna viðbragðanna

Finnbogi stofnaði Gleðismiðjuna (gledismidjan.is) ásamt vini sínum, Þorsteini Gunnari Bjarnasyni, leikara og jógakennara, og eru þeir gríðarlega hamingjusamir vegna viðbragðanna.

„Við ætlum að gera þetta á meðan ástríðan logar. Við þróuðum einföld prógrömm sem skapa gleði og við höfum mætt í fyrirtæki, félagasamtök, gæsanir, veislur og á elliheimili, meðal annars.

Ég kenni líka karlajóga, það er ýmislegt í kortunum í leiklistinni og inni á milli gríp ég í smíðavinnuna.

Ég held að ég hafi alltaf verið inni á þessari línu, ég hef reynt að loka á þetta og vinna bara „venjulega“ vinnu, skaffa vel og kaupa dót.

Ég hefði getað stofnað lóðahönnunarfyrirtæki og grætt peninga. Það er bara ekki mitt leiðarljós og svo eru í raun ekki nema örfá verðmæti sem mælast í peningum. Hjá mér hefur sköpunin, að deila sögum, sjá hverfulleika lífsins með húmor, gefa af mér, alltaf togað í mig að búa til eitthvað og þá er gaman.“

Fólk getur í rauninni miklu meira en það heldur

 Við lærum munstur og við lifum í þessum munstrum. Sem er ágætt út af fyrir sig.

Það sem hefur komið Finnboga helst á óvart er hvað fólk getur í rauninni miklu meira en það heldur.

„Við lærum munstur og við lifum í þessum munstrum. Sem er ágætt út af fyrir sig. En er maður ekki alltaf að uppgötva eitthvað nýtt um sjálfan sig, ef maður er tilbúinn til þess?

Vísindin segja að alheimurinn sé stærri en við höldum og mér finnst heimurinn innra með okkur vera það líka. Eða eins og einn fyrirlesari í jóganu sagði svo skemmtilega: Það er fullt af lífi og hugmyndum fyrir utan mannshugann, hafið það hugfast. Mér finnst þetta þýða að flestir geti upplifað meira en þeir halda,“ segir Finnbogi og hlær.

„Ég sé það í giggum hjá Gleðismiðjunni, í jógakennslunni og hjá sjálfum mér. Þetta er ekkert guðlegt „bliss“. Ég hef margoft séð og heyrt venjulegt fólk, mótorhjólatöffarann eða flíspeysuforeldrið, tala um að allt í einu sé það farið að taka meira eftir umhverfinu, það upplifir tengsl og þakklæti, upplifir að það sé hluti af einhverju stærra en það sjálft og þakkar fyrir „sjálfsögðu“ hlutina, til dæmis fallegu trén úti.“

Aðspurður segir Finnbogi að vinnan úr áfallasögunni hafi verið hans langstærsti, persónulegi sigur. „Ef ekki væri fyrir hana þá væri ég ekki að gera það sem ég er að gera í dag.“

Hann faldi sig á bak við grín og trúðsgrímu, en það var alltaf eitthvað sem hindraði hann í að blómstra.

Þessi munstur eru lærð hegðun einhvers staðar frá

Hann segir okkur að lífið hafi meira og minna verið í  „fight or flight mode“ (átaka eða flótta-hegðun) og „survivalisma“ (komast af-hegðun). „Ef það drepur ekki líkamann drepur það allavega sálina. Þessi munstur eru lærð hegðun einhvers staðar frá. Kannski er þetta einhvers konar „torfkofatrauma“-kynslóð frá kynslóð því mér finnst margir tala um þetta.

Mér fannst mikið vera í húfi. Ég er smá bardagamaður í mér og hugsaði líka að ég yrði sterk fyrirmynd fyrir dóttur mína. Mjög snemma í ferlinu upplifði ég frelsi og gríðarlegan innri fögnuð þegar ég skynjaði að gömul munstur molnuðu niður og stigveldi féllu hvert á eftir öðru, líkt og við fall Rómaveldis.

Ég var fljótari en ég bjóst við að byggja upp nýtt og hamingjusamara líf. Ég segi stundum að líf mitt hafi verið stormurinn á undan logninu. Ég verð fertugur í desember og finnst eins og mjög mörgum á svipuðu reki að lífið sé einmitt að byrja núna. Annar persónulegur sigur er náttúrlega dóttir mín, Heiður Ísafold, 9 ára, við erum miklir sálufélagar.“

Finnbogi segir okkur að helsta áskorunin sé einfaldlega að halda áfram. Það er erfiðara að halda markmiðinu, en að ná því.

„Stundum nenni ég ekki þessu jógabrölti og andlega þvaðri og vil bara fá mér kaffi og bakkelsi. Þá bara geri ég það. En þá er stutt í stöðnun.

Mér finnst jafn sjálfsagt að fara til sálfræðings eins og sjúkraþjálfara eða heimilislæknis. Maður fer alltaf út sem betri manneskja.“

Hann segist enn þá finna fyrir skömm og feimni hjá fólki þegar kemur að faglegri aðstoð varðandi tilfinningaleg mál. Sérstaklega ef fólk er fast í gömlum munstrum.

Verkurinn í hnénu er að segja manni eitthvað. Sama með andlega þáttinn. Þetta á líka við ef manni líður mjög vel, þá er maður að gera eitthvað rétt.

„Ég kannast við þegar fólk segir jafnvel með stolti frá bakverkjum eða vöðvabólgu vegna vinnuálags, en ef minnst er á að sá vandi geti verið tilfinningalegs eðlis eða gamalt munstur þá er eins og viðkomandi móðgist.

Kannski er þetta hin íslenska „vinnualkagríma“, alveg eins og ég var með trúðsgrímuna mína. En nú er 2021 og það má ræða hlutina.

Líðan manns segir manni eitthvað, alveg eins og verkurinn í hnénu. Líka þegar manni líður vel, þá er maður að gera eitthvað rétt. Hvort sem maður vill losna við eitthvert áfall, stórt eða lítið, eða bæta sjálfan sig, þá næst ekki árangur með því að sitja á steini og hugleiða eða að skoppa um nakinn í skóginum og tengjast trjánum. Þetta eru oft átök og stundum mikill sársauki sem þarf að fara í gegnum. En frelsið sem maður upplifir síðan er stórkostlegt. Þarna held ég að langflestir geti meira en þeir halda. Og þessi hugljómun eða „bliss“ sem fylgir í kjölfarið, og ég upplifi stundum við jógaiðkun, er kannski það sem flestir eru að leita að. Mig grunar að því verði aldrei náð með endalausum peningum, botnlausu kynlífi, heppilegri breytingu á öðru fólki eða frama. Þetta er fyrir ofan það og mér heyrist að flestir séu bæði meðvitað og ómeðvitað að leita þessum friði, „blissi“ eða hugljómun, ég líka. Eldri kona sagði einu sinni við mig; „ef þetta væri einfalt og auðvelt væru allir að þessu.“ Kannski er ég bara ótrúlega heppinn að hafa fundið þessa leið en mig langar að sinni þessu á meðan áhuginn er til staðar.“

Næst á dagskrá hjá Finnboga er að halda áfram með Gleðismiðjuna á meðan eldurinn logar og kenna jóga. „Ég er ekki hefðbundinn níu til fimm-gæi þótt svoleiðis verkefni detti inn, ég þrífst best í skapandi umhverfi.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -