Loftslagsfullrúi Ungra umhverfissinna og einn skipuleggjenda Loftslagsverkfallsins, hinn 19 ára gamli Finnur Ricart, segist hafa orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum með ræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á COP26 í hádeginu í dag.
„Ég er bara smá reiður ef ég á að vera hreinskilinn. Forsætisráðherra nefndi í upphafi ræðunnar að vísindin séu skýrari en nokkru sinni fyrr og að við séum að sjá neyðarástand skapast um allan heim. En samt vilja stjórnvöld ekki lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum á Íslandi og markmiðin sem Katrín sagði síðan frá beint á eftir eru ekki nálægt því að vera fullnægjandi í samhengi við vísindin sem hún vísar í,“ segir hann og bætir við að heimurinn þurfi að draga saman losun um 50 prósent fyrir 2030 til að halda hlýnun jarðar innan 1.5 gráðu; en samkvæmt uppfærðu landsframlagi Íslands með ESB verður Íslandi líklega úthlutað um 40% samdrætti.
„Það bara gengur ekki að rík þjóð í forréttindastöðu, sem Ísland er, sé með lægra markmið heldur en það sem meðaltal heimsins þarf að vera,“ segir Finnur og heldur áfram:
„Ég er staddur hérna fyrir hönd ungs fólks á Íslandi og það veldur einfaldlega vonbrigðum að heyra hvað stjórnvöld segjast vera að gera mikið og flott miðað við það sem er í raun og veru verið að gera, eða öllu heldur ekki verið að gera. Til dæmis nefndi Forsætisráðherra nýju Orca stöð Climeworks sem var nýverið tekin í notkun, en stjórnvöld eru ekki að styðja nægilega nóg við kolefnisförgunar og förgunar verkefni og fyrir utan það þurfum við að gera allt sem við getum til að draga úr losun fyrst, áður en við leggjum allt okkar traust í svona tæknilausnir.“
Bætir við:
„Síðan vísar Katrín í bók Andra Snæs og talar um mikilvægi þess að hugsa um framtíðarkynslóðir, en ég er nokkuð viss um að það sem Andri Snær myndi gera til að tryggja lífvæna framtíð þessara framtíðarkynslóða væri mun meira og metnaðarfyllra en það sem stjórnvöld eru að gera. Ég myndi vilja sjá stjórnvöld hlusta meira á það sem við unga fólkið höfum að segja og setja sér markmið í takt við þau vísindi sem þau vísa sjálf í,“ segir þessi bráðefnilegi og eldklári piltur.
Heimild: Fréttablaðið