Fitness-stjarnan og einkaþjálfarinn Emily Skye er mjög opin á Instagram og hefur leyft fylgjendum sínum að fylgjast með því hvernig hún kemur sér í form eftir barnsburð, en hún eignaðist dótturina Miu í desember á síðasta ári.
Emily birti árangurinn sem hún hefur náð á aðeins tveimur mánuðum á þriðjudaginn og eins og sést á myndunum er farið að glitta í kviðvöðva Emily á ný.
„Ég verð aldrei söm, líkamlega séð (sem er ekki slæmt),“ skrifar Emily við samsetta mynd af kviðvöðvum sínum fyrir óléttuna og vöðvunum tveimur mánuðum eftir fæðingu.
„Ég er að gera það mesta úr því sem ég hef. Ég er enn með lausa húð á maganum en kviðvöðvarnir eru að láta sjá sig aftur – sem sýnir mér að það sem ég er að gera er að virka,“ bætir hún við.
Allt rétt við þetta
Emily fer eftir svokölluðu FIT-prógrammi sem sameinar æfingar, hollt mataræði, núvitund og hvatningaræfingar. Emily stundar líkamsrækt undir eftirliti læknis og hefur verið að fikra sig hægt og áfram í hinum ýmsu æfingum síðan í janúar síðastliðnum.
Hins vegar hafa neikvæðar raddir látið í sér heyra vegna þess hve Emily byrjaði fljótt að æfa aftur. Hún svarar gagnrýninni á Instagram.
„Sumt fólk misskilur ástæður mínar á bak við það að lifa heilbrigðum lífsstíl og telja það sjálfselskt því ég er orðin mamma. Að vera í góðu formi, sterkur og heilbrigður er mér mikilvægt, aðallega út af líðan minni. Og ef ég er hamingjusöm er ég svo mikið betri móðir dóttur minnar Miu og betri maki mannsins míns Dec og svo framvegis,“ skrifar Emily.
Hún segir ekkert að því að vilja líta vel út, þó hreysti sé ávallt í fyrsta sæti hjá henni.
„Svo lengi sem ég er ekki að fórna heilsunni til að líta út á ákveðinn hátt og svo lengi sem þetta hefur ekki neikvæð áhrif á fjölskyldu mína þá sé ég ekkert að þessu. Þvert á móti finnst mér allt rétt við þetta.“