Victoria Beckham keypti sér óvenjulegt húðkrem á dögunum sem húðlæknir bjó sérstaklega til fyrir hana.
Hönnuðurinn Victoria Beckham splæsti í húðkrem á dögunum. Það væri ekki frásögu færandi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að kremið inniheldur frumur úr hennar eigin blóði og ein krukka af kreminu kostar 1.200 pund sem gerir um 188 þúsund krónur.
Það er Dr. Barbara Sturm sem bjó kremið til fyrir Victoriu en hún er þekkt fyrir að framkvæmda svokallaðar „vampíru“ andlitsmeðferðir. Það sem felst í þeirri andlitsmeðferð er að blóð fólks er borið með ákveðnum aðferðum á andlitið og á þetta að hafa yngjandi áhrif á húðina.
Victoria greindi sjálf frá þessu á Instagram. Þar sagðist hún nota kremið bæði kvölds og morgna og að það hefði bólgueyðandi og frískandi áhrif á húðina.
Victoria mun hafa kynnst þessum óvenjulegu húðvörum þegar hún fór með sjö ára dóttir sína í andlitsbað fyrir börn til Dr. Sturm í Þýskalandi. Þessu er sagt frá á vef Hello! Magazine.