Fjöldi staðfestra COVID-19 smita er kominn upp í 1.789 hér á landi. Fjögur ný smit hafa greinst á síðasta sólarhring samkvæmt nýjustu tölum á covid.is. Virkum smitum fer fækkandi á milli daga en virk smit voru 270 í gær, þau voru 313 talsins daginn áður, þriðjudag.
Í gær voru 194 sýni rannsökuð á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, tvö þeirra reyndust jákvæð af COVID-19. Þá voru 431 sýni rannsökuð hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær, tvö smit greindist í þeim sýnum.
Samkvæmt tölum covid.is hafa 1.509 einstaklingar náð bata eftir að hafa smitast.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar í dag klukkan 14.00 líkt og áður. Gestir fundarins í dag verða Páll Matthíasson forstjóri Landspítala og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.