Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Fjölbreytt flóra erlendra leikmanna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vel á þriðja hundrað erlendra leikmanna frá 48 mismunandi löndum spila knattspyrnu á Íslandi í sumar. Nærri tveir af hverjum þremur spila með liðum á landsbyggðinni. Flestir hinna erlendu leikmanna koma frá Spáni.

Mannlíf tók saman fjölda erlenda leikmanna í öllum deildum karla og kvenna á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Miðað er við fjölda útlendinga á leikskýrslu í leikjum fyrstu umferðar í hverri deild fyrir sig. Þetta eru ekki endanlegar tölur þar sem einhverjar umferðanna voru spilaðar áður en félagaskiptaglugginn lokaði þann 15. maí. Hann opnar svo aftur í júlí og þá er líklegt að einhver lið geri breytingar á sínum leikmannahópi.

Alls voru 229 erlendir leikmenn á leikskýrslu í þessum fyrstu umferðum, 199 í karlaflokki og 30 í kvennaflokki. En 60 prósent þessara leikmanna leika með liðum utan höfuðborgarsvæðisins. Bakgrunnur þessara leikmanna er æði ólíkur. Ætla má að meirihluti þeirra, einkum þeir sem leika í efstu deildunum, hafi verið fenginn til Íslands gagngert til að spila fótbolta yfir sumartímann en einnig er um að ræða erlenda ríkisborgara sem eru búsettir á Íslandi og hafa annað aðalstarf en fótbolta. Þess vegna þarf fjöldi pólskra leikmanna ekki að koma á óvart enda Pólverjar stærsti hópur innflytjenda á Íslandi.

Gott orð af Spánverjum og Bandaríkjamönnum

Ekki er hægt að segja annað en að flóran sé fjölbreytt en alls koma leikmennirnir 229 frá 48 löndum úr öllum heimshornum. Samsetning erlendra leikmanna í karlaflokki hefur breyst mikið á undanförnum árum. Hér áður fyrr voru leikmenn frá ríkjum fyrrum Júgóslavíu mest áberandi ásamt einstaka sendingum frá Bretlandseyjum en í dag eru Spánverjar fjölmennastir. Hjá konunum hafa leikmenn frá Bandaríkjunum gjarnan verið áberandi og er það enn svo.

„Það var náttúrlega mjög eðlilegt ástand þegar þessir leikmenn frá fyrrum Júgóslavíu komu hingað á 10. áratugnum. Þetta voru menn sem voru að spila hörku fótbolta í sínu heimalandi en eru að flýja stríðsátök og enda á Íslandi sem þeir hefðu annars aldrei gert,“ segir Hjörvar Hafliðason, einn helsti fótboltaspekingur landsins. Hann segir að fjölda Spánverja umfram önnur þjóðerni skýrast af aðstæðum þar í landi. „Ef við horfum til dæmis á önnur stór lönd eins og England, Þýskaland og fleiri lönd, þá eru C-deildirnar mjög sterkar þar. Því er hins vegar ekki fyrir að fara á Spáni og fyrir leikmenn sem spila utan B-deildar, þá bíður þeirra nánast ekkert og þess vegna koma þeir hingað.“ Hjörvar segir að reynsla íslenskra liða af spænskum leikmönnum sé mjög góð og að af þeim fari gott orð. Margir af bestu leikmönnunum í 1. og 2. deild séu Spánverjar og þá séu nokkrir öflugir leikmenn í Pepsi Max-deildinni.

Alltaf einhver saga

- Auglýsing -

Hjörvar segir einnig að gott orð fari af bandarískum leikmönnum. „Þeir Bandaríkjamenn sem ég hef kynnst og heyrt af eru með rosalega jákvætt viðhorf. Þeir eru mjög þakklátir því þeir upplifa sig eins og atvinnumenn í Evrópu.“ Það er þó ekki alltaf reynslan með erlendu leikmennina. „Það er mjög oft þannig að þegar þú ert að fá útlending, þá er einhver saga. Af hverju vill hann koma til Íslands og spila?“ spyr Hjörvar og tekur tvo leikmenn sem dæmi, Hollendinginn Prince Rajcomar og Svíann Velmir Berisha. „Prince Rajcomar var í unglingalandsliðum Hollands með leikmönnum sem héldu áfram að spila í bestu deildum Evrópu og Valmir Berisha var markahæsti leikmaðurinn á HM 17 ára landsliða á undan Kelechi Iheanacho [framherja Leicester]. Frábærir leikmenn en það vantar bara svo margt annað, það er eitthvað að og þess vegna enda svona menn á Íslandi. En svo auðvitað koma einstaka gullmolar eins og Richard Keogh og Kemar Roofe,“ segir Hjörvar en þeir leikmenn komu hingað ungir að árum og léku með Víkingi áður en þeir gerðu gott mót í ensku deildarkeppninni.

Almennt er Hjörvar á því að aðkoma erlendra leikmanna sé af hinu góða. Víða úti á landi væri ekki hægt að halda úti liðum ef ekki væri fyrir erlenda leikmenn þótt vissulega sé nauðsynlegt að hafa jafnvægi, það er að ekki sé verið að fá miðlungs góða leikmenn erlendis frá á kostnað efnilegra heimamanna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -