Á miðnætti tóku breytingar á samkomubanni gildi hér á landi í samræmi við minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis varðandi afléttingu takmarkana vegna kórónuveirufaraldursins.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra samþykkti tillögur Þórólfs um afléttingu takmarkana sem fela meðal annars í sér að fjöldatakmörk þeirra sem koma saman fari úr 200 í 500.
Í minnisblaði Þórólfs til Svandísar er einnig lagt til að nú verði engar takmarkanir á fjölda gesta í sundlaugum og líkamsræktarstöðvum. Áður máttu sundlaugar og líkamsræktarstöðvar ekki taka á móti fleirum 75% af leyfðum fjölda samkvæmt starfsleyfi þessara staða.
Áfram er fólk hvatt til að viðhalda tveggja metra fjarlægð í samskiptum við aðra eftir því sem aðstæður leyfa er fram kemur í auglýsingu Svandísar.
Áfram verður veitingastöðum sem selja áfengi og skemmtistöðum lokað klukkan 23.00. Sömuleiðis verða sömu kröfur um sótthreinsun og þrif almenningsrýma innandyra.