Ein af fyrstu Twitter-færslum Donalds Trump á nýju ári voru hamingjuóskir til Jair Bolsonaro sem skömmu áður hafði verið svarinn í embætti forseta Brasilíu. Það var engin hending því á milli þeirra er gagnkvæm aðdáun og hefur Bolsonaro verið nefndur „brasilíski Trump“.
Í honum sér Trump náinn bandamann og skoðanabróður og var utanríkisráðherrann Mike Pompeo sendur til að vera viðstaddur innsetningarathöfnina. Á meðal annarra þjóðarleiðtoga sem voru viðstaddir athöfnina voru Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Gestalistinn gefur ákveðna innsýn í hugmyndafræði Bolsonaros sem andstæðingar hans óttast að muni binda enda á lýðræði í Brasilíu.
Hugmyndafræði Bolsonaros er af sama meiði og annarra þjóðarleiðtoga sem hafa sprottið upp víða um heim að undanförnu. Þetta eru, auk þeirra Trump, Netanyahu og Orban, (karl)menn eins og Erdogan í Tyrklandi og Duterte á Filippseyjum – þjóðernissinnaðir popúlistar sem reka fleyg í þjóðir sínar og ala á sundrungu og ótta gagnvart raunverulegum og ímynduðum óvinum, nær undatekningarlaust útlendingum, minnihlutahópum og óskilgreindri elítu. Þrátt fyrir að vera nær alltaf hluti, eða dyggilega studdir, af hinni raunverulegu elítu.
Bolsonaro er þar engin undantekning. Hann hefur málað fjölmiðla, menntamenn og grasrótarsamtök sem óvini ríkisins og hótað þeim jafnt sem pólitískum andstæðingum fangelsisrefsingum þegar hann kemst til valda. Hann talar fyrir íhaldssömum kristilegum gildum, fer ekki leynt með andúð sína á samkynhneigðum og trans fólki, er harður andstæðingur fóstureyðinga og hefur lýst yfir stríði gegn pólitískri rétthugsun sem hann telur ógna grunngildum Brasilíu. Umhverfissinnar og mannréttindasamtök óttast líka stefnu hans því hann hefur heitið því að slaka verulega á löggjöf í því skyni að fjölga leyfum til hvers konar námuvinnslu, meðal annars á hinu viðkvæma Amazon-svæði. Þar er að finna fjölda frumbyggja sem hafa lifað í einangrun en Bolsonaro hefur talað um að „aðlaga þá samfélaginu“ sem margir óttast að þýði einfaldlega útrýmingu þessara hópa.
Þrátt fyrir allt ofantalið nýtur Bolsonaro hylli meðal flestra þjóðfélagshópa. Almenningur í Brasilíu er orðinn langþreyttur á getuleysi og spillingu hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka sem og gegndarlausum glæpum. Í þeim efnum hefur Bolsonaro heitið að taka til óspilltra málanna.
Spilling og glæpir
Brasilía er fimmta fjölmennasta land heims og áttunda stærsta hagkerfi veraldar, það langstærsta í Suður-Ameríku. Þróun mála þar hefur þess vegna gríðarlega mikil áhrif á alþjóðamálin. Blómaskeið Brasilíu var í upphafi aldarinnar undir stjórn Fernando Henrique Cardoso og Lula da Silva, hagvöxtur var mikill og milljónum tókst að brjótast úr fátækt. En síðan hann lét af embætti hefur leiðin legið þráðbeint niður á við. Fjármálakreppan skall á Brasilíu af fullu afli árið 2013, misskipting auðs er æpandi og spilling hefur grasserað í stjórnmálum og viðskiptalífi. Lula sjálfur var dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir spillingu og peningaþvætti og eftirmaður hans, Dilma Rousseff var hrakin úr embætti árið 2016. Samhliða því hefur glæpatíðni aukist hratt og á Brasilía 17 af þeim 50 borgum í heiminum þar sem morðtíðni er hæst.
Árásin og bakgrunnur, elítan
Það er upp úr þessum jarðvegi sem Jair Bolsonaro skýst upp á stjörnuhimininn. Hann hefur setið á þingi síðan 1990 með lítt eftirtektarverðum árangri og helstu afrek hans voru að hafa setið á þingi fyrir átta mismunandi flokka. Hann varð hins vegar óvænt stjarna kosningabaráttunnar í fyrra með óheflaðri framkomu, stóryrtum yfirlýsingum og snjallri kosningabaráttu á samfélagsmiðlum. Um leið aflaði hann sér óvina og í september lifði hann naumlega af banatilræði þegar hann var stunginn á kvið eftir kosningafund í borginni Juiz de Fora. Rétt eins og Donald Trump fór hann fram undir þeim merkjum að ráðast gegn spillingu og brjóta elítuna á bak aftur (sbr. „drain the swamp“) en tilheyrir henni engu að síður sjálfur. Þannig fór stuðningur við Bolsonaro vaxandi upp eftir tekjustiganum og fjölskyldumeðlimir hans hafa verið bendlaðir við spillingu.
Stefnan
Hugmyndafræði Bolsonaros er að mörgu leyti keimlík hugmyndafræði Donalds Trump, bæði í efnahagsmálum og utanríkismálum. Hann geldur varhug við auknum umsvifum Kínverja í Brasilíu og er, rétt eins og Trump, tíðrætt um viðskiptahalla og þörfina á betri samningum við Kína. Þá er Bolsonaro jafnframt einarður andstæðingur stjórnvalda í Venesúela sem gerir hann að enn álitlegri bandamanni í augum Trump-stjórnarinnar. Hann talar fjálglega um að hann sé fulltrúi hinna fátæku stétta þótt það sé fátt í stefnu hans sem bendir til þess. Þvert á móti er líklegt að aðgerðir hans komi verst niður á þeim fátækustu, einkum og sér í lagi þeldökkra í fátækrahverfum, eins og vikið er að síðar. Forsetinn hefur sömuleiðis ítrekað viðhaft neikvæð orð í garð kvenna, samkynhneigðra og trans fólks. Þrátt fyrir allt þetta mældist hann með meiri stuðning en mótframbjóðandi hans í forsetakosningunum á meðal kvenna og þeldökkra.
Glæpagengi og herforingjar
Yfirlýsingar Bolsonaros í gegnum tíðina hafa fengið marga til að óttast að lýðræði í Brasilíu muni senn líða undir lok. Hann hefur ítrekað dásamað herforingjastjórnina sem stjórnaði með harðri hendi á árunum 1964 til 1985 og í ríkisstjórn hans sitja fleiri hershöfðingjar en hafa gert síðan sú stjórn leið undir lok. Búist er við að hann gefi lögregluliði landsins, sem verður sífellt hervæddara, frítt spil í baráttunni gegn glæpagengjum með sömu afleiðingum og á Filippseyjum Dutartes þar sem þúsundir hafa verið teknar af lífi án dóms og laga. Fórnarlömb lögreglunnar, sem nú þegar er ábyrg fyrir 1 af hverjum 5 dauðsföllum af völdum skotvopna, verða líklega að miklu leyti blökkumenn í fátækrahverfunum. Þá vílar hann ekki fyrir sér að hóta pólitískum andstæðingum, fjölmiðlum og öðrum sem gagnrýna hann refsingum. Ekki ósvipað Donald Trump nema að munurinn er sá að bandarískar lýðræðisstofnanir eru mun sterkari en þær brasilísku og hafa náð að vega upp á móti einræðistilburðum Trumps en allóvíst er að það verði raunin í tilfelli Bolsonaro.