Mánudagur 20. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Fjölmiðlapistillinn – TikTok – Tifandi tímaþjófur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hvað í fjandanum er þetta TikTok? er spurning sem miðaldra fólk eins og ég hefur sjálfsagt spurt sig síðan þetta fyrirbæri kom fram á sjónarsviðið. Við vitum að Facebook er eitt stórt markaðstorg, þar sem við sjálf erum varan, og að Instagram er aðallega vettvangur þar sem sjálfmiðaðir fá allt sem þeir þrá; athygli og samþykki. Þá vita líka flestir að Twitter er partí vinsæla og flotta fólksins sem venjulegu fólki var ekki boðið í. En hvað í fjandanum er þetta TikTok?

Dóttir mín er algjörlega ofurseld TikTok og erum við foreldrarnir í miklu basli við að hafa hemil á notkun hennar en náðum því þó í gegn að hún sé bara með vini sína sem fylgjendur, til að reyna að koma í veg fyrir neteinelti sem ku þrífast á miðlinum. Dóttir mín hjálpaði mér, tækniheftum pabba sínum, að búa til aðgang á þennan miðil sem er það vinsæll að lag frá níunda áratug síðustu aldar, toppar aftur vinsældalista heims eftir að hafa birst í myndböndum á TikTok. Valdi hún frekar óheppilegt nafn handa mér, en það fattaði ég eftir á. Nafnið er pabbigamli… Ekki stefni ég á heimsfrægð, vildi bara athuga af hverju dóttir mín á erfitt með að stjórna notkun sinni á miðlinum og hvaða læti þetta væru eiginlega.

Nú hef ég notað TikTok í nokkra mánuði og get sagt að ég sé kominn með undirstöðuskilning á þessu fyrirbæri. Þetta er sem sagt ekki bara kjánalegir TikTok-dansar sem gerir flinka dansara að milljarðamæringum heldur er þetta talsvert meira en það. Þetta er helsti tímaþjófur internetsins í dag. Nafnið á miðlinum er því afar vel viðeigandi þar sem klukkan tikkar og tokkar ansi oft á meðan maður er fastur þar. Ef maður vill sem sagt slökkva á heilanum og gleyma stund og stað, er TikTok tilvalinn vettvangur. Þar er hægt að sjá fólk rembast við að vera fyndið, sumum tekst það, öðrum ekki eins og gengur og gerist, svo eru það beinu útsendingarnar sem sumar eru það furðulegasta sem ég hef séð, en þar er fólk til dæmis að strjúka míkrófóninum sínum og hvísla í hann og smella tungunni og gefa frá sér furðuleg hljóð, en þetta finnst mörgum þægilegt. Ég er ekki einn af þeim. Svo eru það smakk-myndböndin þar sem fólk smakkar hitt og þetta og gefur því einkunn. Ég viðurkenni að ég hef lúmskt gaman af slíku. Margt annað má finna þarna sem festir mann í vef heilalausrar skemmtunar, hvort sem það er gott eða slæmt. Svo að lesendur fái skýrari hugmynd um TikTok ákvað ég að kíkja á tíu myndbönd af handahófi og lýsa þeim í stuttu máli.

1. Amerískur maður í yfirvigt segir brandara. Ég er feitur en ég auðkenni mig ekki sem feitan, ég er trans-slinder. Drepfyndið…
2. Bandarískur grínisti bregst við skrítnu matreiðslumyndbandi. Hann hefur verið fyndnari.
3. Bein útsending þar sem bresk stelpa talar um naggrísinn sinn og sýnir búrið hans. Afar áhugavert.
4. Hinn íslenski Maggi Mix er staddur í skóglendi og segir að það sé í lagi að vera aumingi, en reynir svo við að lyfta upp trjádrumbi og tekst það að lokum. Vel gert.
5. Myndband frá Grindavík sem sýnir jarðskjálfta í verslun. Svakalegt.
6. Hin íslenska Thelma keppir við vin sinn í lyftingum, þykist taka 100 kíló. Nokkuð fyndið.
7. The Lovely Boys-gríntvíeykið með fyndið hnerrmyndband. Guð hjálpi þeim.
8. Breskur maður bregst við matarsmakkmyndbandi og er alveg steinhissa. Ég setti ekki „like“ við það.
9. Grínistinn Jesse Joseph spyr spurninga sem fá heilann til að taka heljarstökk. „Ef þú kýlir þig í andlitið og þú meiðir þig, ertu þá sterkur eða aumur?“ Gott stöff.
10. Kafari skoðar skrítinn fisk. Dýr eru alltaf skemmtileg.

Ég ætla hvorki að mæla með TikTok né hitt, þetta er fínt ef maður þarf ekkert að nota heilann í einhvern tíma eða er búinn með púslið og leiðist. En þarna þrífast líka alls konar leiðindi heyrir maður, þótt ég hafi ekki tekið eftir því. Allt er gott í hófi sagði skáldið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -