Calvin Munerlyn, 43 ára öryggisvörður í versluninni Family Dollar í borginni Flint í Michigan, fylki í norðurhluta Bandaríkjanna, var skotinn til bana á vinnustað sínum á föstudaginn.
Hjón, 45 ára Sharmel Teague og 44 ára Larry Teague, og 23 ára sonur þeirra eru grunuð um morðið. BBC fjallar um málið, þar segir að fjölskyldan hafi rifist við Munerlyn skömmu áður en hann lést en hann meinaði dóttur hjónanna aðgang inn í verslunina vegna þess að hún var ekki með andlitsgrímu.
Michigan-fylki hefur farið illa úr kórónuveirufaraldrinum og hafa rúmlega fjögur þúsund manns látist þar vegna veirunnar. Yfirvöld fylkisins gera kröfu um að almenningur sé með andlitsgrímur inni í verslunum og annars staðar á almannafæri til að draga út útbreiðslu veirunnar.
Dóttir Teague-hjónanna var ekki með andlitsgrímu þegar fjölskyldan ætlaði inn í Family Dollar-verslunina og var henni þess vegna meinaður aðgangur. Vitni segja fjölskylduna hafa rifist við Munerlyn vegna þessa.
Hjónin og sonur þeirra eru sögð hafa yfirgefið verslunina eftir rifrildið við Munerlyn og sótt skammbyssu. Vitni segja soninn hafa skotið Munerlyn.