Fjölskylduhjálp Íslands neyðist til að loka í sumar vegna fjárskorts. Þetta er í fyrsta skipti á 16 ára ferli samtakanna þar sem engin aðstoð verður yfir sumarið. Lokað verður frá 1. júlí til 1. september. Morgunblaðið greinir frá.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar, segir í samtali við Morgunblaðið vera kvíðin fyrir hönd þeirra sem nýta sér aðstoðina. „Þeir sem leita til okkar gera það ekki sér til gamans og að sjálfsögðu hefðum við viljað hafa opið í allt sumar.“ Ásgerður segir að svipaður fjöldi hafi sótt um aðstoð hjá samtökunum í sumar og í fyrra.
Fjölskylduhjálpin veitir hátt í 900 matargjafir á mánuði. Þá er aðstoðin meðal annars fjármögnuð með framlögum, söfnunum og flóamörkuðum í Reykjavík og Reykjanesbæ. Markaðarnir verða opnir í allt sumar.
Samkvæmt Vilborgu Oddsdóttur hjá Hjálparstarfi kirkjunnar er algengt að efnaminni foreldrar leiti til hjálparstofnana. Þá er oft um að ræða fjárhagsaðstoð til að standa undir kostnaði sumarnámskeiða og íþróttaferða. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.