Lögreglan hafði nóg fyrir stafni í gær og í nótt.
Lögreglan á höfuðhorgarsvæðinu hafði í gær afskipti af fjórtán ára dreng sem var að aka bíl í Hlíðahverfi. Hafði hann tekið bíl ófrjálsri hendi og var á rúntinum með fjórum jafnöldrum sínum, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Þar er ennfremur greint frá því að ekið hafi verið á þrettán ára pilt á vespu í Garðabænum. Slapp hann ómeiddur en vespan skemmdist lítilsháttar. Þá var ekið á hjólreiðamann í miðborginni en ekki kemur fram hvort maðurinn meiddist í árekstrinum.
Þá komu á borð lögreglu nokkur mál sem rekja má til ölvunar. Þannig var ökumaður, grunaður um ölvunarakstur, handtekinn í miðborginni eftir að hann keyrði á tvær bifreiðar og flúði af vettvangi. Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu.
Tilkynnt var til lögreglu um ofurölvi konu sem þar sem hún lá á bifreiðastæði í hverfi 203 í Kópavoginum. Kom lögregla henni í hendur aðstandanda. Lögregla aðstoðaði mann í sama hverfi en sá var ofurölvi og hafði fallið af hjóli. Eftir að sjúkraflutningamenn höfðu skoðað manninn var honum og hjólinu ekið heim, þar sem hann var ekki í nokkru ástandi til að komast ferða sinna.
Þetta er á meðal þeirra mála sem komu á borð lögreglu í gær og í nótt.