Ljósmyndarinn Trina Cary ákvað að bjóða alls konar konum að koma saman á strönd einni og gefa börnum sínum brjóst við sólarlag.
„Þetta var gjörsamlega unaðslegt,“ skrifar ljósmyndarinn á vefsíðu sína og lætur fylgja með dásamlegar myndir af þessari brjóstagjafarstund.
Margar af konunum sem mættu á ströndina hafa átt í erfiðleikum með brjóstagjöf, sem gerði stundina enn fallegri. Margar kvennanna skemmtu sér svo vel að þær fækkuðu fötum og hlupu naktar um ströndina.
„Ég gat ekki hætt að brosa,“ skrifar Trina og heldur áfram:
„Ég elska þegar ókunnugir koma saman og styðja vegferð og líkama hvors annars. Allt kvöldið var fullt af krafti, stuðningi og ást.“
Á vefsíðu ljósmyndarans er að finna reynslusögur nokkurra kvennanna, þar sem þær útskýra af hverju þær gefa börnum sínum brjóst og af hverju það er þeim svo mikilvægt.
„Ég tók þátt því ég átti í vandræðum með brjóstagjöf með fyrsta barnið mitt, en í annað sinn var ég svo ákveðin og nú gef ég brjóst án vandkvæða og gæti ekki verið stoltari,“ skrifar Hannah Callow.
Leilani Power segir að það hafi verið erfitt í fyrstu að gefa dóttur sinni, Bellu brjóst.
„Ég þurfti að gefa henni pela í þrjár vikur þegar hún var aðeins nokkurra vikna gömul til að hvíla blæðandi geirvörturnar. Ég þurfti að nota geirvörtuhlíf í þrjá mánuði þar sem Bella náði ekki góðu taki án þeirra. Ég felldi mörg tár en ég var ákveðin í að halda áfram. Nú er Bella níu mánaða og brjóstagjöfin orðin að vana. Mig langaði að fagna þeim árangri sem við höfum náð,“ skrifar hún.
Fleiri reynslusögur og myndir af þessum fallega viðburði má sjá hér.
Myndir / Trina Cary