Alls fljúga fimmtán flugfélög til Íslands í ár en það eru einu fleiri en árið 2019, fyrir heimsfaraldurinn. Þá er búist við miklum fjölda ferðamanna hingað til lands eða allt að 1,2 milljón manns. Bendir hvort tveggja til um kröftuga viðspyrnu í ferðaþjónustu hér á landi og segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia spána vera gleðifréttir.
„Það má segja að við séum að endurheimta fyrri styrk,“ sagði Guðmundur í viðtali við Fréttablaðið en meðal flugfélaga sem fljúga hingað til lands eru British Airways, EasyJet, Lufthansa, Norwegian, SAS og Wizz air.
Segir Guðmundur í viðtalinu að Isavia hafi lagt ríka áherslu á að vera í góðu sambandi við þau flugfélög sem flugu hingað á meðan á heimsfaraldrinum stóð. Þess má geta að í sumar verða flugfélögin 25 talsins sem fljúga til Íslands, jafnmörg og sumarið 2019.