Framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir fleiri skjólstæðinga tilkynna ofbeldi gegn börnum en áður.
Fleiri konur en nokkru sinni hafa við komu til Kvennaathvarfsins greint frá því að ofbeldi gegn börnum hafi átt sér stað á heimili þeirra, að því er fram kemur í samtali Sigþrúðar Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins við mbl.is. Segist Sigþrúður vona að vitundarvakning sé ástæðan fyrir þessari aukningu.
Þá segist Sigþrúður reikna með að aðsókn í þjónustu Kvennaathvarfsins aukist í haust. Konur tilkynni oft ekki strax um heimilisofbeldi og því líkur á að ofbeldismál sem hafi komið upp í COVID-19 faraldrinum eigi eftir að koma fram.