Á morgun hefjast réttarhöld yfir hinum danska Flemming Mogensen sem er ákærður fyrir að hafa myrt Íslendinginn Freyju Egilsdóttur, 29. janúar á þessu ári í Malling á Jótlandi í Danmörku. Það var DV sem greindi fyrst frá þessu.
Flemming og Freyja voru gift og áttu tvö börn saman þegar hinn hryllilegi atburður átti sér stað.
Flemming var fundinn sekur um morð á annarri barnsmóður sinni, Kristina Hansen, árið 1995, en hún var aðeins tvítug að aldri.
Fyrir stuttu sýndi TV2 Østjylland heimildarmynd um Alex Mogensen, son Flemmings, en heimildarmyndin ber nafnið Min far dræbte min mor og stedmor.
Heimildarmyndin byggist upp að mestu á samtölum við Alex; mann sem hefur nú misst móður sína og stjúpmóður en báðar féllu þær fyrir hendi föður hans.
Mikið verra verður það varla.
Í áðurnefndri heimildarmynd ræðir Alex um rosaleg reiðiköst föður síns. Alex segir föður sinn hafa verið skapmikill með afbrigðum; ekki hafi þurft nema eitthvað smotterí til að hann trylltist; Alex segir föður sinn ekki endilega hafa verið reiður út í einhvern sérstakan eða eitthvað sérstakt: Bara verið reiður út í heiminn:
„Maður missti kannski hnífapör á gólfið og hann brjálaðist,“ segir Alex í myndinni og bætir við að það hafi þurft að tipla á tánum í kringum hann til að ekkert færi úr böndunum.
Alex gefur í skyn að Flemming hafi glímt við andlega erfiðleika; að þegar hann var undir miklu álagi hafi það komið út í svakalegum reiðiköstum; einnig að Flemming hafi glímt við sjálfsvígshugsanir og mikla sektarkennd vegna morðsins á móður Alex.
Þegar Alex var um tíu ára gamall flutti hann frá föðurafa sínum og ömmu, sem höfðu haft forræði yfir honum, til föður síns, Flemmings, sem var þá laus úr fangelsi og byrjaður að búa með Freyju:
„Það var greinilega engum sem datt í hug að það væri slæm hugmynd að ég flytti til föður míns. Það var greinilega bara mjög eðlilegt að hann fengi mig“ segir Alex í myndinni.
Hann lýsir föður sínum á frekar einfaldan og skýran hátt:
„Fúll og reiður.“
Þá er líka rætt við Jette Hansen í myndinni; móður Kristinu, sem segir að þau hafi verið afar ástfangin; þau urðu par þegar Kristina var einungis 17 ára, en Flemming er sex árum eldri.
Jette segir að eftir því sem tíminn leið hafi farið að bera meira á háværum og miklum rifrildum þeirra á milli; og að lokum hafi þau slitið sambúðinni þegar Alex var tveggja ára.
Jette segir einnig að þegar hún líti til baka og skoði í huganum þá hryllilegu atburði sem hafi einkennt líf Flemmings, þá hafi fátt bent til þess að svona færi þegar hann var yngri og hún hitti hann í fyrsta sinn.
Hún segir að það hafi eðlilega verið henni mikið áfall að átta sig á því að Flemming hafi búið yfir svo dökkri hlið.
Alex segir að það hafi ekki verið mörg ár sem samband Freyju og Flemming var gott og heilbrigt. Hann hafi ekki verið svo gamall þegar hann fór að taka eftir rifrildum þeirra og hreinlega átökum þeirra á milli; að þegar þau hafi rifist hafi hávaðinn oft orðið óþægilega mikill:
„Auðvitað voru stundir sem voru góðar en þær voru ekki margar. Ég hef lært hvernig maður á að gera hlutina með því að skoða hvað faðir minn og Freyja gerðu og síðan gera hlutina algjörlega á annan hátt; á við um margt; uppeldisaðferðir og hvernig á að haga sér í ástarsambandi og hvernig maður á að koma fram við annað fólk. Ég hef lítið jákvætt að segja um árin sem ég bjó hjá þeim. Við Freyja höfðum það oft ágætt saman: Svo hafa verið margar, miklar og mismunandi tilfinningar, en síðustu 3-4 árum töluðum við mikið um föður minn, og samband þeirra og hvernig við gætum hjálpað honum,“ segir Alex meðal annars í myndinni Min far dræbte min mor og stedmor.