„Flesta daga í dag er ég mjög hamingjusamur,“ segir Grétar Sigurðarson, einn þriggja manna sem hlaut dóm í líkfundarmálinu, í viðtali við Austurgluggann.
Kvikmyndin Undir Halastjörnu eftir Ara Alexander Ergis Magnússin var nýlega frumsýnd. Myndin fjallar um líkfundarmálið svokallaða þegar lík af karlmanni fannst fyrir tilviljun í höfninni í Neskaupsstað.
Níu dögum eftir að líkið fannst voru þrír karlmenn handteknir vegna málsins. Einn af þeim er Grétar Sigurðarson. „Ég hef oft hugsað um hvernig það hefði verið hefði þetta aldrei komist upp. Hvernig mér liði í dag ef ég hefði þurft að þaga yfir þessu alla ævi, aldrei getað talað um þetta við neinn og þá ekki unnið úr þessu,“ segir Grétar í viðtali við Austurgluggann, fréttablað Austurlands, fjórtán árum eftir að málið kom upp. „Ég er búinn að vinna mikið í mínum málum og reyna að sættast við þetta, ég breyti engu héðan af hvort sem er.“
Í viðtalinu segir Grétar frá hvernig líf hans hefur þróast síðan hann hlaut dóm. „Flesta daga í dag er ég mjög hamingjusamur. Ég er edrú en hef alveg fallið annað slagið, en það eru aldrei langir túrar og mér hefur borið gæfa til að standa aftur á lappir. Ef ég hins vegar missi stjórn á lífi mínu og dett í neyslu hef ég ekki hugmynd um hvað ég geri,“ segir hann í viðtalinu. Hluta af því er að finna á austurfrett.is.
Skömmu áður en Undir halastjörnu var frumsýnd tók Mannlíf kafarann Þorgeir Jónsson tali. Það var hann sem fann líkið á sínum tíma. „Það lá á botninum alveg upp við bryggjuna og ég sá strax að þetta var manneskja, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum. Mér brá virkilega við þessa sýn skoðaði aðstæður lítillega en fór svo upp til að láta vita og biðja um að hringt yrði á lögregluna. Ég kafaði síðan niður aftur til að taka myndir og kom með þær upp um svipað leyti og lögreglan mætti á svæðið. Þetta var mjög óraunverulegt og það lá við að lögreglumennirnir tryðu mér ekki fyrr en ég sýndi þeim myndirnar,“ sagði Þorgeir þegar hann rifjaði þennan atburð upp í viðtali við Mannlíf. Viðtalið má lesa í heild sinni hér.
Mynd / Stilla úr sýnishorni myndarinnar Undir Halastjörnu