Slökkvilið Akureyrar og Mýflug hafa í sameiningu tekið ákvörðun um að nota eina sjúkraflugvél til að fljúga með sjúklinga með grun um eða staðfest COVID-19 smit.
Sagt er frá þessari „sérstöku COVID-19 vél“ á Facebook-síðu slökkviliðs Akureyrar. Þar segir að nú þegar hafi verið flogið með nokkra smitaða einstaklinga frá Akureyri og verður því haldið áfram þar til faraldurinn gengur yfir.
„Þessi ráðstöfun hefur komið sér afar vel því eftir sjúkraflug með smitaða einstaklinga er ekki farið í annað flug fyrr en vélin hefur verið þrifin,“ segir í færslunni.