Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Flóki hefur bjargað fjórum mannslífum: „Þetta er í fyrsta skipti sem ég hnoða lífi í einhvern“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Flóki Sigurðsson hefur bjargað fjórum mannslífum á seinustu tveimur mánuðum, sem er meira en flestir gera á heilli ævi.

Flóki, eins og hann er yfirleitt kallaður, er búsettur í Lissabon á Portúgal, ásamt fjölskyldu sinni, þar sem hann starfar sem tuktuk bílstjóri. En Flóki keyrir með túrista og kynnir þá fyrir borginni.

Kominn tími til að prufa eitthvað nýtt

Það var í júlí 2019 sem Flóki flutti til Lissabon ásamt portúgalskri konu sinni og tveimur börnum þeirra. „Elsta stelpan mín býr enn á Íslandi og barnabarnið mitt, en það var kominn tími fyrir okkur hin að breyta aðeins til,“ segir Flóki í samtali við Mannlíf.
Þá höfðu þau hjónin búið saman á Íslandi í 13 ár og segir hann það hafi verið tímabært fyrir fjölskylduna að prufa að búa saman í hinu heimalandinu.

En hvernig vildi það til að hann gerðist tuktuk bílstjóri?

„Ég var bara að rölta niðri í bæ með konunni minni þegar við rákumst á einn tuktuk bílstjóra sem ég fór að spjalla við. Ég spurði hann um starfið og launin og hann benti mér á fyrirtækið sem hann vann fyrir.
Ég ákvað að slá til og sótti um, fékk viðtal og var í raun bara ráðinn á staðnum.“ Þetta var í nóvember 2019.
Flóki segist elska starfið sitt og vílaði það ekki fyrir sér þó hann hafi ekkert þekkt borgina þegar hann flutti út.
„Ég þekkti borgina ekki neitt og þurfti að lesa mér til um hvað væri merkilegt og hvað ég gæti sýnt fólkinu. Þetta var allt alveg glænýtt fyrir mér,“ segir hann og heldur áfram.
„En þetta er æðislegt starf, ég er úti að keyra um borgina, alltaf að hitta nýtt fólk og spjalla við nýtt fólk, þetta er bara geggjað.“

„Ég þekkti borgina ekki neitt og þurfti að lesa mér til um hvað væri merkilegt og hvað ég gæti sýnt fólkinu.“

- Auglýsing -

Réttur maður á réttum stað

Fyrir viku síðan má segja að Flóki hafi heldur betur verið réttur maður á réttum stað, þar sem ungur maður hné niður.

Flóki varð ekki vitni að atvikinu, en tók eftir því, þar sem hann var úti að brasa í tuktuknum sínum, að allir í kringum hann voru að horfa í sömu átt.

- Auglýsing -

„Ég lít upp til að vita á hvað fólkið í kring er að horfa og sé þá konu vera gera lífsbjörgunartilraun á ungum manni sem liggur meðvitundarlaus á jörðinni,“ segir Flóki.

Hann hljóp umsvifalaust til konunnar og bauð fram aðstoð sína, sem hún þáði.

„Konan biður mig um að hnoða og hún sér um að blása.“ Flóki fer strax í að hnoða manninn, sem á þessum tímapunkti var lífvana.

„Það liðu um tíu til fimmtán mínútur, frá því ég byrjaði að hnoða manninn og þar til sjúkrabíll mætir á svæðið og flytur hann í burtu.“
Hafði Flóka og konunni tekist að hnoða líf í manninn og var lífsmark með honum þegar sjúkraflutningamennirnir tóku við.

Varð að fá að vita hvort væri í lagi með manninn

„Um hálftíma seinna fékk ég gífurlegt adrenalínsjokk. Ég ætlaði að reyna halda áfram að vinna, en samstarfsfélagi minn sá að ég var hreinlega ekki í standi til þess eftir þetta og sagði bara „Flóki það er ekki allt í lagi með þig.“ Sem var rétt og ég fór bara heim og fékk huggun og stuðning frá konunni minni.“

Segir Flóki manninn ekki hafa vikið úr huga sér og það hafi verið erfitt að fá ekki að vita hvort það væri í lagi með hann.

„Síðan bara tveimur dögum seinna fékk ég skilaboð frá vinkonu minni.“ Vinkonan sendi Flóka Instagram reikning ungs manns sem hana grunaði að væri maðurinn sem Flóki bjargaði.

„En þetta er í fyrsta skipti sem ég hnoða lífi í einhvern. En ég kunni réttu handbrögðin og vissi hvað ég átti að gera.“

„Og þetta var hann, þannig ég ákvað að senda honum skilaboð. Ég varð að athuga hvort það væri í lagi með hann, ég hugsaði ekki um annað.“

Maðurinn svaraði honum og þakkaði honum kærlega fyrir lífsbjörgunina og vill gjarnan fá að hitta Flóka.

„Hann vissi sjálfur ekkert hvað gerðist, en það kom í ljós að hann reyndist vera með undirliggjandi hjartasjúkdóm, sem hann hafði ekki hugmynd um. Hann gekkst undir aðgerð og er kominn með gangráð og er á batavegi.“

Flóki gerir ráð fyrir að hitta manninn sem hann bjargaði þegar maðurinn hefur heilsu til.

Ótrúleg viðbrögð

Flóki við vinnu á sólríkum degi

„Þetta var vægast sagt mjög skrýtin upplifun. Það er liðin rúm vika síðan og ég er enn ekki búinn að ná mér eftir þetta. Þessi tilfinning er ennþá í mér að ég hafi náð að bjarga honum og að hann sé enn lifandi,“ segir Flóki og auðheyranlegt að þessa lífsreynsla hefur haft mikil áhrif á hann.

„Viðbrögðin sem ég hef fengið eftir þetta eru líka ótrúleg.“

En Flóki segist ítrekað hafa lent í því síðustu daga að ökumenn bíla sem keyri fram hjá honum berji á bringuna á sér og kalli til hans „respect.“

„Maður sem býr rétt hjá mér, sá mig fyrir utan á þriðjudaginn og kom bara út til þess að óska mér til hamingju með að hafa bjargað mannslífi. Svo hef ég fengið fullt af skilaboðum, en vinkona mín skrifaði um atvikið á sameiginlegt netsvæði tuktuk bílstjóra hér á svæðinu.“

„Maður veit aldrei hvað gerist næst“

Þá segir Flóki að portúgölsk kona hafi haft samband við sig og beðið hann um að taka þátt í kennslu á fyrstu hjálpar námskeiði fyrir tuktuk bílstjóra.

„Við erum út um allt og erum svo nálægt fólki. Maður veit aldrei hvað gerist næst,“ segir Flóki og segir því afar gott að kunna réttu handbrögðin og viðbrögðin ef einhver þurfi á aðstoð að halda.

Sjálfur starfaði Flóki í Slökkviliðinu á Íslandi í 10 ár, hann hefur einnig verið í Slysavarnaskóla sjómanna og fleira og hefur því mikla reynslu af endurlífgun.

„En þetta er í fyrsta skipti sem ég hnoða lífi í einhvern. En ég kunni réttu handbrögðin og vissi hvað ég átti að gera.“

Bjargaði þremur ungmennum frá drukknun

Í ágúst síðastliðnum var Flóki líka réttur maður á réttum stað, þegar hann bjargaði þremur ungmennum frá drukknun.

„Ég var með fjölskyldunni minni á ströndinni, þegar konan mín kallar á mig að hún haldi að það séu krakkar að drukkna. Ég rauk af stað og næ að drösla þessum krökkum upp úr sjónum.“

Segir Flóki krakkana hafa verið sirka 15 til 16 ára, en algengt sé að fólk í Portúgal sé ósynt.

„Þau voru bara að leika sér og höfðu farið aðeins of lang og kunnu ekki að synda.“

Skjót og góð viðbrögð Flóka í báðum þessum tilvikum eru vægast sagt mögnuð og þeim líklegast að þakka að þetta fólk er á lífi í dag.
„Ég ætla ekki að standa og horfa á, vitandi að ég gæti gert eitthvað, en gera það ekki. Það væri það versta,“ segir þessi magnaði maður að lokum.

Hægt er að fylgjast með áhugaverðu lífi Flóka á Snapchat, en hann heldur úti reikningnum Flóki í Portugal.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -