Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Flokkarnir njóta líka góðærisins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rekstrarumhverfi stjórnmálaflokka hefur gjörbreyst á undanförnum tveimur árum eftir að framlög til þeirra úr ríkissjóði hafa meira en tvöfaldast á tveimur árum. Á sama tíma hafa framlög einkaaðila farið hækkandi. Auk þess að fjölga í starfsliðinu þurfa flokkarnir sömuleiðis að grynnka á skuldum sem í einhverjum tilfellum eru langt umfram eignir þeirra.

Samtals fá stjórnmálaflokkarnir átta sem sitja á þingi 744 milljónir króna úr ríkissjóði í ár og skiptist upphæðin eftir hlutfalli atkvæða í þingkosningunum 2017. Í fyrra skiptu flokkarnir á milli sín 648 milljónum en þrjú árin þar á undan námu upphæðirnar 286 milljónum.

Þessa miklu hækkun má rekja til ákvörðunar stjórnmálaflokkanna sjálfra enda greiðslur til þeirra samkvæmt ákvörðun fjárlaga hverju sinni. Tildrög hækkunarinnar milli áranna 2016 og 2017 má rekja til sameiginlegs erindis framkvæmdastjóra sex stjórnmálaflokka, þeirra flokka sem nú skipa Alþingi utan Pírata og Flokks fólksins, til fjárlaganefndar Alþingis þar sem óskað var eftir leiðréttingu á framlaginu.

Var vísað til þess að framlagið hafði lækkað um helming á raunvirði frá árinu 2008 og þar sem flokkum á þingi hafði fjölgað var, eðli málsins samkvæmt, minna til skiptanna fyrir hvern og einn flokk. Þá var vísað til þess að stjórnmálasamtök starfi í þágu almannahagsmuna en hafi þrátt fyrir það ekki bolmagn á við helstu hagsmunasamtök. Niðurstaðan var sú að framlögin voru hækkuð úr 286 milljónum í 648 milljónir, eða um 127 prósent.

Ári síðar voru framlögin fyrir árið 2019 hækkuð um 96 milljónir króna, eða um 20 prósent. Sú hækkun var skýrð annars vegar með hækkun verðlags og launa en auk þess bættist við nýtt grunnrekstrarframlag upp á 12 milljónir á hvern þingflokk í því skyni að styrkja stöðu smærri flokka.

Fleiri flokkar, minna fé

Það er rétt sem fram kom í bréfi framkvæmdastjóranna að framlög til stjórnmálaflokka höfðu dregist allnokkuð saman fram til ársins 2016. Á meðfylgjandi línuriti má sjá framlögin á föstu verðlagi og sést glögglega hvar framlögin lækka fram til ársins 2015 þegar lítils háttar hækkun varð á framlaginu. Á þessum sama tíma breyttist landslagið í íslenskum stjórnmálum ört.

- Auglýsing -

Þannig skiptist framlagið á milli sex flokka kjörtímabilið 2009 til 2013. Sex flokkar komust inn á þing í kosningunum 2013 en Dögun, Flokkur heimilanna og Lýðræðisvaktin fengu einnig sneið af kökunni þar sem þau framboð höfðu fengið meira en 2,5 prósent atkvæða. Átta framboð, þar af sjö sem komust inn á þing, skiptu með sér framlaginu eftir kosningarnar 2016 . Með öðrum orðum, þá hafði tekjugrunnur hvers og eins flokks dregist allnokkuð saman á árunum frá hruni og fram til ársins 2016.

Eiga von á meira frá fyrirtækjum og einstaklingum

En það voru ekki bara ríkisframlögin sem rýrnuðu því framlög fyrirtækja og einstaklinga til stjórnmálaflokka drógust einnig verulega saman frá hruni. Þau náðu hámarki árið 2007 þegar þau námu 358 milljónum króna, en þessar háu styrkupphæðir, auk styrkja til einstakra frambjóðenda í prófkjörsbaráttu, urðu tilefni mikilla deilna við bankahrunið og þóttu sýna tangarhald auðjöfra á stjórnmálastéttinni.

- Auglýsing -

Framlög þessi drógust því hratt saman eftir hrun og náðu lágmarki árið 2012 þegar þau námu 115 milljónum króna. Árið 2013 hækkuðu styrkir lögaðila og einstaklinga til flokkanna umtalsvert en það var kosningaár og kosningabaráttan æði hörð. Styrkirnir fóru aftur lækkandi fram til ársins 2015 en hækkuðu á ný 2016 og 2017 sem skýrist líkast til af þingkosningum bæði þessi ár.

Þessi tekjustofn gæti þó hækkað á næstunni því samhliða hækkun framlaga úr ríkissjóði hækkuðu hámarksframlög einstaklinga og fyrirtækja. Nú eru hámarksframlög einstaklinga og fyrirtækja 550 þúsund í stað 400 þúsund áður og hámarksupphæð sem einstaklingur getur gefið nafnlaust hækkaði úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund. Þessar hækkanir voru skýrðar með verðlagsbreytingum.

Sjálfstæðisflokkurinn í sérflokki

Samkvæmt nýbirtu yfirliti fjármálaráðuneytisins fær Sjálfstæðisflokkurinn 178 milljónir króna á fjárlögum ársins 2019.

Þegar horft er á samanlagðar tekjur flokkanna kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn er í algjörum sérflokki. Ekki bara fær flokkurinn, í krafti fjölda atkvæða, hæstu framlögin frá ríkissjóði og sveitarfélögum heldur fær hann langhæstu styrkina frá fyrirtækjum og einstaklingum til viðbótar. Samkvæmt nýbirtu yfirliti fjármálaráðuneytisins fær Sjálfstæðisflokkurinn 178 milljónir króna á fjárlögum ársins 2019.

Síðasti fyrirliggjandi ársreikningur er frá árinu 2017 og það ár fékk flokkurinn tæplega 60 milljónir króna frá fyrirtækjum og einstaklingum. 15,2 milljónir komu frá fyrirtækjum og 44 milljónir frá einstaklingum. Reyndar þurfti flokkurinn að endurgreiða hálfa milljón króna eftir að í ljós kom að hann hafði þegið 900 þúsund krónur frá félögum í eigu útgerðarkonunnar Guðbjargar Matthíasdóttur, en á þessum tíma var hámarksfjárhæð styrkja 400 þúsund krónur úr einum og sama vasanum. Loks komu 17,8 milljónir króna í framlög frá sveitarfélögum (sjá kafla um framlög frá sveitarfélögum).

Samfylkingin fær rúma 91 milljón úr ríkissjóði í ár en fékk næstmestu framlögin frá fyrirtækjum og einstaklingum árið 2017, 43,7 milljónir króna. Þar af komu 37 milljónir króna frá einstaklingum. Þá fékk flokkurinn 11,4 milljónir frá sveitarfélögum. Tvö framboð skáru sig úr hvað varðar framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum. Annars vegar Píratar sem fengu aðeins 560 þúsund krónur frá fyrirtækjum en söfnuðu 8,4 milljónum frá einstaklingum.

Flokkur fólksins spilaði í utandeildinni ef svo má komast að orði, fékk 100 þúsund krónur frá fyrirtækjum og 1,1 milljón frá einstaklingum. Þó ber að hafa í huga að flokkurinn fékk ekki kjörinn mann á þing fyrr en haustið 2017. Framlög til annarra flokka námu á bilinu 8,8 til 21,4 milljónum. Framsóknarflokkur, Miðflokkurinn og Viðreisn eiga það sameiginlegt að sækja meirihluta styrkja til fyrirtækja á meðan aðrir flokkar fá megnið af sínum framlögum frá einstaklingum.

Flokkarnir skulda mikið

Þrátt fyrir aukin framlög á liðnum árum verða stjórnmálaflokkarnir seint taldir gróðamaskínur. Þvert á móti er ekki óalgengt að stjórnmálaflokkar skili reglulega tapi og þess vegna safnað upp talsverðum skuldum.

Ekki er óalgengt að stjórnmálaflokkar skili reglulega tapi og þess vegna safnað upp talsverðum skuldum.

Rétt eins og á tekjuhliðinni er Sjálfstæðisflokkurinn í sérflokki þegar kemur að skuldum. Samkvæmt síðasta fyrirliggjandi ársreikningi fyrir árið 2017 námu skuldir flokksins 421 milljón króna. Á móti koma umtalsverðar eignir en í árslok 2017 voru eignir Sjálfstæðisflokksins metnar á 783 milljónir króna. Samfylkingin bókfærði einnig umtalsverðar eignir þetta árið, 190 milljónir króna, en skuldir flokksins stóðu þá í 114 milljónum króna. Píratar njóta sem fyrr nokkurrar sérstöðu að þessu leyti því flokkurinn skuldaði þá ekki nema eina milljón króna og var með jákvætt eigið fé upp á 46 milljónir.

Eigið fé annarra stjórnmálaflokka var á þessum tíma neikvætt. Framsóknarflokkurinn skuldaði 242 milljónir króna og var með neikvætt eigið fé upp á 58,5 milljónir króna. Eigið fé VG var neikvætt um 18 milljónir og stóðu skuldir í 37,5 milljónum. Hinir nýstofnuðu flokkar, Viðreisn, Miðflokkur og Flokkur fólksins, voru sömleiðis allir í mínus á þessu tímabili.

Sveitarfélögin leggja einnig í púkkið

Sveitarfélögum er skylt að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa að minnsta kosti einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið að minnsta kosti 5 prósent atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar. Fjárhæðinni er úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.

Reykjavík borgar mest

Reykjavíkurborg greiddi stjórnmálasamtökum að minnsta kosti 97,5 milljónir króna á síðasta kjörtímabili, eða rúmar 24 milljónir á ári. Kópavogur greiddi um 23 milljónir króna á síðasta kjörtímabili og í Hafnarfirði voru greiðslurnar rúmar 18 milljónir. Reykjanesbær og Garðabær styrktu stjórnmálasamtök um rúmar 14 milljónir hvor og Akureyri um 8 milljónir.

Sjálfstæðisflokkur fær mest

Sjálfstæðisflokkurinn fékk hæstu upphæðina frá sveitarfélögum árið 2017, eða um 17,8 milljónir króna, enda flokkurinn með flesta bæjarfulltrúa á landsvísu. Samfylkingin fékk næstmest, 11,4 milljónir, og Framsóknarflokkurinn 5,7 milljónir. VG fékk tæpar 3,6 milljónir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -