Nokkuð mörg dæmi eru þess að sérfræðimenntað starfsfólk hafi hætt störfum á bráðamóttöku Landspítalans, en svo segir formaður Félags sjúkrahúslækna.
Þrátt fyrir að fjárveitingar til spítalans hafi aukist mun það taka marga mánuði að ráða sem og þjálfa upp starfsfólk.
Læknirinn Eggert Eyjólfsson birti í gær færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir frá uppsögn sinni á bráðamóttöku, og segir Eggert engum hollt að starfa í því umhverfi sem fólki sé þar búið; því síður að sækja þjónustu þangað.
„Því miður eru allmörg dæmi um það að sérmenntaðir bráðalæknar hafi sagt upp störfum seinustu misseri,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson í samtalið við ruv.is, en hann er formaður Félags sjúkrahúslækna.
Segir hann ástæðu þessara uppsagna vera alltof mikið álag:
„Og þetta eru skörð sem er mjög erfitt að fylla upp í. Bæði hvað varðar bráðalæknana og hjúkrunarfræðingana. Mikil reynsla sem hverfur þarna. Þannig þetta er gríðarleg blóðtaka fyrir starfsemi bráðamóttökunnar,“ segir Theódór Skúli.
Mikið hefur verið um afar skæðar umgangspestir og starfsfólk Landspítala sendi frá sér neyðarkall á milli jóla og nýárs vegna ástandsins.
Formaður Læknafélags Íslands sagði ástandið verra en áður.
Formaður stjórnar Landspítala, Björn Zoëga, sagði fyrr í vikunni að þetta sé ekki lengur spurning um peninga; spítalinn sé vel fjármagnaður og að það þurfi að einfalda skipulag og draga úr yfirbyggingu:
„Það eru náttúrulega ákveðnar gleðifréttir að stjórnarformaður Landspítalans telji að það sé búið að fjármagna spítalann loksins, en það breytir því ekki að mönnunarvandamál spítalans er uppsafnaður vandi, áratuga vandi. Og það verður ekki leyst á einni nóttu,“ segir Theódór Skúli.