Sumir sérfræðingar spá því að flugbílar komi til með að draga úr vandamálum eins og umferðarhnútum og mengun.
Stjórnvöld í Japan hafa fengið til liðs við sig 21 fyrirtæki, innlend fyrirtæki og eins stór, alþjóðleg fyrirtæki á borð við Boeing, Airbus til að þróa hugmyndir að flugbílum og hefur hópurinn gefið út að hann komi til með að leggja fram tillögur sínar nú í vikunni.
Talið er að flugbílar, auk sjálfkeyrandi bíla, eigi eftir að valda straumhvörfum í tækni, en sumir sérfræðingar eru á því að þeir muni draga úr óteljandi vandamálum, þar með talið umferðarhnútum og mengun. Undanfarin ár hafa ýmis einkarekin fyriræki sett fram hugmyndir að slíkum bílum, þar á meðal Rolls-Royce og Alphabet sem er með tvær gerðir flugbíla á teikniborðinu. Með aðkomu japanskra stjórnvalda eru yfirvöld hins vegar í fyrsta sinn að blanda sér með beinum hætti í málið, en talið er að afskipti þeirra geti flýtt töluvert fyrir framgangi flugbíla þar sem reglugerðir hafa hingað til verið ein helsta hindrunin fyrir því að þeir verði að veruleika.
Mynd / Uber vill prófa fljúgandi leigubíla í Japan.