Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair hafa undirritað nýjan kjarasamning. Uppsagnir flugfreyja hafa verið teknar til baka.
„Þetta eru búnir að vera mjög erfiðir dagar. Nú fer vonandi að sjást til sólar og við förum að horfa á bjartari tíma,“ sagði Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, FÍÍ, í samtali við RÚV eftir að samninganefnd félagsins og Icelandair undirrituðu nýjan kjarasamning hjá ríkissáttasemjara um tvö leytið í nótt, en FÍÍ hafði óskað eftir fundinum.
Á RÚV segir að á fundinum hafi náðst málamiðlun um aukafrídaga fyrir flugfreyjur eldri en 60 ára og um svokallaða sex daga reglu sem gengur út á það að ekki megi setja flugfreyju á skrá fleiri en sex daga samfellt. Þá er kveðið á samstarf um aukna hagræðingu í nýja samningnum.
Í samtali við mbl.is sagði Bogi að samningurinn væri í takt við það sem félagið stefndi að. „Þetta er mikilvægur þáttur í þessari vegferð sem við erum í, að koma félaginu í gegnum þennan storm og klára þetta verkefni sem við erum í, mjög mikilvægt, já,“ sagði Bogi, þegar hann var spurður hvort verið væri að bjarga félaginu með samningnum.
Sagðist Guðlaug Líney vera mjög ánægð með nýja samninginn og bindur hún vonir við að félagsmenn samþykki hann, en samkvæmt RÚV verður hann kynntur félagsmönnum Flugfreyjufélags Íslands á fundi þann 20. júlí. Í kjölfarið verða greidd um hann atkvæði, en atkvæðagreiðslu lýkur 27. júlí. Verði samningurinn samþykktur gildir hann til fimm ára.