Samskip hefur opnað nýja siglingaleið frá Póllandi.
„Það er verið að byggja gríðarlega mikið og byggingastigið hér mun haldast óbreytt til 2020. Helsta aukning í innflutningi er einmitt byggingarefni frá Póllandi, stálgrindur og fleira. En svo er pólskt samfélag á Íslandi sem þarf að þjónusta,“ segir Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri innflutningasviðs Samskipa.
Samskip voru að opna nýja siglingaleið með erlendum samstarfsaðila frá Póllandi, í gegnum Eystrasaltið, Ósló í Noregi og Árósa í Danmörku. Birgir segir að kallað hafi verið eftir bættum tengingum við þetta svæði og sé Samskip nú að svara því.
Verðmæti innflutnings frá Eystrasaltsríkjunum hefur aukist nokkuð á síðastliðnum átta árum. Mesti vöxturinn er á innflutningi frá Póllandi. Verðmætið nam tæpum 5,9 milljörðum króna árið 2010 en var kominn upp í 20,1 milljarð í fyrra. Mesti vöxturinn var frá 2016 til 2017 eða upp á 42% á milli ára.