Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Fokreiðir strandveiðimenn: „Aumingjaskapur af ráðherranum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Strandveiðibátum er óheimilt að róa til fiskjar eftir daginn í dag. Heildarkvóti flotans er uppurinn og allur flotinn, um 600 bátar, í kringum landið verður bundinn þegar aðeins átta veiðidagar eru liðnir af mánuðinum. Vertíðinni, sem hófst í maí, er því lokið þegar ágústmánuður er rúmlega hálfnaður.  Vonir voru uppi um að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra myndi bæta við kvótann til að tryggja flotanum úthald út mánuðinn en þær hafa nú brugðist. Mikil reiði er á meðal sjómanna á svæði B og C. Þeir fara illa út úr sumrinu á meðan bátar á svæði A hafa tekið til sín mestan kvóta úr sameiginlegum potti. Elías Svavar Kristinsson, skipstjóri á Dröngum á Ströndum, er einn þeirra sem misbýður. Hann gerir út á svæði B.

Það hefði verið auðvelt að finna kvóta

„Okkur var talin trú um að við fengjum alltaf 12 daga í hverjum mánuði. Við á B-svæði vorum blekktir til að samþykkja breytingar á strandveiðikerfinu. Það tapa allir nema Vestfirðingar á A-svæði sem hagnast á þessu,” segir Elías sem gert hefur verið að stöðva veiðar eftir daginn í dag. Hann hefur róið 8 daga í mánuðinum. Þetta þýðir tap upp á milljón krónur á bát. Elías botnar ekkert í ráðherra sjávarútvegsmála.

„Þetta er aumingjaskapur af ráðherranum. Það hefði verið auðvelt að finna kvóta fyrir þessa þrjá daga sem standa út af hjá flestum. Hann finnur ekki kvóta upp á örfá tonn. Mér sýnist þetta vera 1000 tonn sem þurfti til að trygga úthaldið. En stórútgerðin má færa 30 prósent af kvótanum milli ára. Við erum að tala um 100 þúsund tonn í því tilviki. Þá er nógur fiskur í sjónum. Ráðherrann er svo getulaus að hann finnur ekki 1000 tonn fyrir almúgann. Það blasir við fyrir hverja þessi volaða ríkisstjórn er að vinna. Við búum í Nígeríu norðursins,” segir Elías.

Hann segir útfærslu veiðanna og stoppið nú vera sérstaklega slæmt fyrir Austfirðinga.

„Fiskurinn gengur seint á grunnmið fyrir austan vegna þess hve kaldur sjórinn er. Sjómenn fyrir austan eru ævareiðir. Með réttu hefði átt að bæta september inn í kerfið og gefa okkur 12 daga í viðbót í stað þess að stöðva veiðarnar nú,” segir Elías sem hefur þegar bundið bát sinn við bryggju og lokið úthaldi þessa árs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -