Samkvæmt niðurstöðu könnunar, sem var lögð fyrir háskólanema, telja sjö prósent sig eiga við vanda að stríða þegar kemur að áhorfi á klám. Könnunin, sem unnin var fyrir fyrir BS-ritgerð Egils Gylfasonar í sálfræði, sýnir einnig að tæp tólf prósent háskólanema horfa á of mikið klám. „Klámvandinn er fjölbreyttur og fer eftir aðstæðum viðkomandi. En hann truflar alltaf eitthvað annað í lífi viðkomandi, hvort sem það er truflun á líðan eða aðstæðum,“ sagði Egill í samtali við Fréttablaðið en klámvandann sagði hann vera mikið tabú í samfélaginu.
Bætti hann við að vandinn sé oft farinn að hafa mikil áhrif á líf fólks þegar það ákveður að segja frá. Orsök klámvandans sé margvísleg til dæmis félagsleg einangrun, kynferðisleg vandræði, togstreita í samböndum, minni áhugi á námi eða vinnu en mjög algengt er að klám tengist á einhvern hátt skilnuðum. Þá er líklegra að fólk upplifi klámvanda ef klámið sem það horfir á stríði gegn siðferðilegum gildum í samfélaginu. Aukið aðgengi fólks að klámefni kom með internetinu en kom það Agli mikið á óvart hversu margir horfa á klám í símanum sínum. „Fólk getur nú horft á klám uppi á Esjunni eða í breska þinginu eins og dæmin sýna,“ sagði hann.