Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Fólk hvatt til að mæta í leðri

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þýskir kvikmyndadagar hefjast með pompi og prakt í dag. Þetta er í tíunda sinn sem hátíðin er haldin og segir dagskrárstjóri Bíó Paradísar, Aron Víglundsson, að úrval mynda hafi líklegast aldrei verið jafngott og í ár.

„Við munum sýna breiða flóru af þýskum bíóperlum, sögulega nasistamynd, hrollvekju, ástarsögu, heimildamynd, bara nefndu það. Úrvalið er ótrúlega fjölbreytt svo að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Aron en Bíó Paradís stendur fyrir hátíðinni í samstarfi við Goethe Institut í Danmörku og þýska sendiráðið á Íslandi.

„Fyrir utan það að þetta skuli vera rjóminn í þýskri kvikmyndagerð þá verður þetta svolítið tónlistartengt hjá okkur í ár. Við náttúrlega opnum hátíðina með Mack the Knife þar sem músík gegnir veigamiklu hlutverki og lokum henni með heimildamynd um plötusnúða sem hafa verið öflugir á þýsku raftónlistar-senunni. Á lokakvöldinu verður svo bíóinu breytt í teknóklúbb, en þá verða ljós, tónlist og læti. Dj-gengið Plútó þeytir skífum og fólk er hvatt til að mæta í leðri,“ segir hann hress og bætir við að sjálfur ætli hann að setja upp leðurkaskeiti af því tilefni. „Þannig að það er viðbúið að stemningin verði svolítið sveitt.“

 Hápunktar hátíðarinnar

Spurður hvort það komi til með að verða einhverjir hápunktar í ár segir Aron að þeir séu nokkrir og þar beri helst að nefna sýningar á myndunum The Captain (Der Hauptmann), Mack the Knife og TRANSIT. „The Captain fjallar um mann sem er á flótta undan nasistum í seinni heimsstyrjöldinni og dulbýr sig sem nasistaforingja í þýska hernum til að komast lífs af,“ lýsir hann. „Mack the Knife er svona „hvað-ef-mynd“, í þessu tilviki: hvað ef Bertolt Brecht hefði leikstýrt mynd byggðri á leikverki sínu og Kurts Weil, hinni umdeildu Túskildingsóperu. Og TRANSIT hlaut feikilega góðar viðtökur þegar hún keppti um gullið á kvikmyndahátíðinni í Berlín; hún er eina myndin á hátíðinni sem verður sýnd áfram í Bíó Paradís eftir að Þýskum kvikmyndadögum lýkur. Mjög ólíkar myndir en allar áferðarfallegar, áhrifaríkar og hrikalega flottar.“

Beðið með eftirvæntingu í ár

- Auglýsing -

Eins og fyrr segir er þetta tíunda árið í röð sem Þýskir bíódagar fara fram, en að sögn Arons er hátíðin fyrir lifandis löngu búin að festa sig í sessi sem einn af vinsælli viðburðum í Bíó Paradís. „Já, hún er fyrir löngu orðin einn af aðsóknarmestu sérviðburðum í bíóinu,“ segir hann glaðlega. „Sumir bíða meira að segja spenntir eftir henni í heilt ár. Sem er gaman því þetta er fyrsta hátíðin sem var haldin í bíóinu eftir að það tók á sig núverandi mynd. Öllum þessum árum seinna eru Þýskir kvikmyndadagar enn jafnvinsælir, vinsælli ef eitthvað er, og það segir okkur kannski á hvaða stað hátíðin og sjálft Bíó Paradís eru í dag.“

Þýskir kvikmyndadagar standa yfir frá 1. til 10. febrúar. Allar myndir verða sýndar á þýsku með enskum texta.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -