Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahússprestur á Landspítala, segir sjúklinga Landspítalans og aðstandendur þeirra sýna ástandinu og nýjum viðmiðum vegna samkomubanns skilning. Hann segir ástandið á sjúkrahúsinu hafa mikil áhrif á tilfinningalíf fólks.
Vigfús segir fólk áfram fást við líf og dauða og veikindi ótengd COVID-19 og að þá geti reynst erfitt fyrir fólk að vera fjarri sínum nánustu. „Ástandið hefur einangrandi áhrif á fólk og við finnum til með fjölskyldum sjúklinga,” sagði Vigfús á upplýsingafundi almannavarna.
„Fólk sýnir þessu skilning en um leið er þetta sárt,“ sagði hann um sjúklinga Landspítalans og aðstandendur þeirra.
Vigfús benti einnig á að ástandið hafi mikil áhrif á heilbrigðisstarfsfólk og biður landsmenn um að hugsa hlýlega til þeirra sem starfa innan heilbrigðiskerfisins.