Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Fólk verslar eins og kjarnorkustyrjöld sé í uppsiglingu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rakel Garðarsdóttir hefur undanfarin fimm ár lagt sig fram um að halda jól á eins umhverfisvænan hátt og unnt er. Færri, gjafir, minna prjál, aðhald í matarinnkaupum og endurnýting pappírs er meðal þess sem hún og hennar fjölskylda leggja kapp á í jólahaldinu.

„Umhverfisvæn jól snúast meðal annars um það að kaupa færri gjafir, kaupa ekki óþarfa, gefa gjafir sem nýtast viðtakandanum og enda ekki bara uppi í skáp,“ segir Rakel spurð hvernig hún geri jólahald fjölskyldunnar umhverfisvænna. „Það er til dæmis mjög sniðugt að gefa miða í leikhús eða á tónleika og gjafakort í nudd eða á eitthvert námskeið. Eitthvað sem fólk hefur ánægju af.“

Spurð hvað það sé langt síðan hún fór að reyna að gera jólin umhverfisvæn á sínu heimili, dregur Rakel við sig svarið. „Sko, ég er ekkert hundrað prósent umhverfisvæn,“ segir hún. „En við bætum einhverju nýju við á hverju ári eftir því sem við verðum meðvitaðri um umhverfisvána. Þetta byrjaði fyrir svona fimm árum. Þá minnkuðum við gjafir, hættum að borða svínakjöt og borðum í staðinn fuglakjöt eða einhverja grænmetisrétti. Við erum ekki með jólatré og notum brúnan kraftpappír til að pakka inn gjöfunum, það er svo erfitt að endurvinna svona glanspappír, og svo söfnum við líka jólapappír utan af þeim gjöfum sem við fáum og endurnýtum til að pakka inn gjöfum næstu jóla. Við notum ekki mikið af skrauti, helst ekki annað en það sem hefur fylgt með öðrum gjöfum eða eitthvað sem við eigum.“

„Í mörg ár hafa aðventan og jólin snúist um það hjá okkur að gera eitthvað saman, hitta vini og njóta. Ég var heldur ekki alin upp við að jólin væru neysluhátíð og það hjálpar auðvitað líka.“

Fjölskylda Rakelar samanstendur af henni sjálfri, eiginmanni og þremur börnum á aldrinum tveggja til sautján ára. Hvernig hafa þau tekið í þessar breytingar á jólahaldinu? Fá þau til dæmis í skóinn?
„Þau eru voðalega nægjusöm,“ segir Rakel og brosir. „Einhverra hluta vegna hafa þau náð því. Yfirleitt fá þau eitthvað í jólagjöf sem þau vantar, eða þá að fjölskyldan fær sameiginlega gjöf. Í fyrra var það Soda stream-tæki sem allir í fjölskyldunni nota. Eldri krakkarnir fengu í skóinn á tímabili en þau eru orðin of gömul fyrir það núna og ég varð mjög glöð þegar það hætti. Ég átti mjög erfitt með það, því mér finnst eins og gæði skógjafa hafi dalað hjá jólasveinunum eftir því sem börnum í heiminum hefur fjölgað og ég er ekki hlynt því einnota dóti sem vill oft dúkka upp í skónum.“

Rakel leggur sig fram um að halda umhverfisvæn jól. Mynd / Unnur Magna

Rakel segir fjölskylduna reyndar alla þannig stemmda að jólin séu ekkert sérstak mál. Séu eiginlega bara eitt gott matarboð. Neysluæðið í desember fái ekki hljómgrunn hjá neinum á heimilinu. „Í mörg ár hafa aðventan og jólin snúist um það hjá okkur að gera eitthvað saman, hitta vini og njóta. Ég var heldur ekki alin upp við að jólin væru neysluhátíð og það hjálpar auðvitað líka. Jólin fyrir mér eru bara að vera saman og kveikja á kerti. Fá sér svo kannski einn Jule Tuborg eftir að maður er kominn á þennan aldur. Við stútfyllum heldur ekki ísskápinn fyrir jólin, heldur nýtum alla afganga vel. Flestir kaupa inn eins og þeir séu að undirbúa sig undir kjarnorkustyrjöld þegar jólin eru að koma. Það hefur aldrei höfðað til mín enda veitir það enga hamingju að sitja uppi með feitan Visa-reikning í janúar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -