Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

„Fólk vill ekki sjá rasismann hérna“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Pape Mamadou Faye flutti til Íslands frá Senegal ellefu ára gamall. Hann hefur áður rætt opinskátt um þá kynþáttafordóma sem hann hefur orðið fyrir hér á landi þau sautján ár sem liðin eru. Hann er í fyrstu tregur til að ræða það mál í einu viðtalinu enn en lætur að lokum tilleiðast.

 

Ástæða þess að Pape flutti til Íslands var að móðir hans hafði flutt hingað þremur árum fyrr og gifst senegölskum manni sem hér bjó. Pape hafði dvalið hjá föður sínum í Senegal þessi þrjú ár og hann segir það hafa verið gríðarlegt menningarsjokk að koma í kuldann og myrkrið á Íslandi.

„Ég kom hingað í janúarmánuði,“ útskýrir hann. „Þannig að munurinn á hitastiginu var ansi mikill. Svo ekki sé minnst á myrkrið. Ég var samt auðvitað mjög glaður að vera kominn til mömmu og fá að vera hjá henni. Ég var með heimþrá fyrstu vikurnar en svo byrjaði ég í Austurbæjarskóla og þá breyttist allt til batnaðar.“

Hlaut að vera körfuboltamaður

Pape segist hafa verið mjög heppinn með bekkinn sem hann lenti í og bekkjarbræður hans hafi séð til þess að honum fyndist hann strax velkominn. Hann hafi ekki orðið fyrir neinu aðkasti vegna húðlitar síns en hins vegar hafi skólasystkini sín haft ansi mótaðar fyrir fram hugmyndir um hvað strák af hans kynþætti fyndist gaman.

„Ég hafði alltaf haft mikinn áhuga á fótbolta og spilað mikið en þegar ég kom í Austurbæjarskóla gengu allir út frá því að ég væri körfuboltamaður. Það var bara viðtekin hugmynd á Íslandi á þeim tíma að allir svartir menn væru körfuboltamenn,“ bætir hann við og skellihlær.

- Auglýsing -
Pape Mamadou Faye flutti til Íslands frá Senegal ellefu ára gamall.

Pape byrjaði að æfa körfubolta með skólafélögum sínum en var líka í fótbolta og náði góðum árangri í báðum greinum. Þegar hann var sextán ára þurfti hann hins vegar að velja á milli og valdi auðvitað fótboltann.

„…ég var nýkominn en lenti hjá fordómafullum þjálfara sem vildi ekki dökkan strák í liðið sitt svo ég fór aldrei þangað aftur.“

„Fótboltinn var alltaf fyrsti kosturinn hjá mér,“ segir hann. „Ég byrjaði hins vegar ekki að æfa hann á fullu fyrr en ég flutti í Árbæinn sex mánuðum eftir að ég kom til landsins. Ég fór á eina æfingu hjá Val þegar ég var nýkominn en lenti hjá fordómafullum þjálfara sem vildi ekki dökkan strák í liðið sitt svo ég fór aldrei þangað aftur.“

Í Árbænum fór Pape að æfa með Fylki og þar var hann strax meðtekinn, segir hann.

- Auglýsing -

„Ég lenti í frábærum hóp með strákum sem þótti vænt um mig og þykir enn, þannig að mér fannst ég aldrei vera utanveltu þar,“ útskýrir hann. „Ég spilaði með Fylki þangað til ég varð nítján ára en þá skipti ég um lið og hef síðan spilað með ýmsum liðum.“

Sárast hvað margir verja fordómana

Eftir að Pape fór að spila keppnisleiki varð hann fyrir fordómum frá áhorfendum, oftast foreldrum mótspilaranna í yngri deildunum. Hann segir það hins vegar misskilning að það séu meiri fordómar innan íþróttahreyfingarinnar en annars staðar, þetta sé bara rótgróið viðhorf á Íslandi.

„Það var oft vesen út af þessu á þeim tíma,“ segir hann. „Ég og annar dökkur strákur, sem er kominn í A-landsliðið núna, fengum alveg að heyra það frá foreldrunum sem kölluðu okkur n-orðinu og fleiri niðrandi orðum sem voru mjög særandi.“

Pape hefur undanfarin ár spilað með Víkingi í Ólafsvík og komst í fréttir fyrr í sumar þegar hann tjáði sig um þau ummæli Björgvins Stefánssonar, leikmanns KR, að það væri svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum eftir atvik í leik sem Björgvin var að lýsa. Pape segir þau ummæli hafa haft djúpstæð áhrif á sig, en það sem kannski hafi sært mest hafi verið hve margir voru tilbúnir að réttlæta þau og gera lítið úr þeim.

„Ég varð reiður, ég viðurkenni það, og enn reiðari vegna viðbragðanna. Það virtist öllum finnast þetta allt í lagi.“

„Ég hef áður farið í svona viðtöl og sagt frá minni reynslu,“ segir hann. „Og ég hef upplifað að margir trúa mér ekki. Halda því blákalt fram að svona hlutir gerist ekki á Íslandi. Mér finnst mjög undarlegt að fólk sem aldrei hefur lent í neinu svona taki þá afstöðu, hvers vegna ætti ég að vera að ljúga þessu? Þetta viðhorf er svo hættulegt. Það kom svo vel í ljós í þessu atviki með Björgvin í sumar, það voru nánast allir tilbúnir til að verja hann og gera lítið úr þessum ummælum, en þetta hafði mikil áhrif á mig og ég átti erfitt með svefn þetta kvöld. Ég varð reiður, ég viðurkenni það, og enn reiðari vegna viðbragðanna. Það virtist öllum finnast þetta allt í lagi.“

Hræddur við að ala upp barn á Íslandi

Pape viðurkennir að hann verði oft mjög þreyttur á því að tala um reynslu sína og annarra þar sem það virðist aldrei vera gert neitt í þeim fordómamálum sem koma upp. Fólk komist mjög auðveldlega upp með að viðra fordóma sína opinberlega, þrátt fyrir að það séu í gildi lög sem banna hatursorðræðu í garð minnihlutahópa. Það geri hann mjög vonlítinn um að þetta breytist til batnaðar. Það sé æpt á hann að drulla sér heim þegar hann gengur um göturnar, stelpur sem hann sé að deita verði fyrir aðkasti fyrir það að vera með honum, hann sé kallaður Djangó og svo framvegis og svo framvegis, en það virðist bara flestir loka augunum fyrir þessu og á meðan svo sé muni ekkert breytast.

„Ég hef þurft að þola þetta síðan ég var unglingur,“ segir hann. „Og nú er ég kominn á þann aldur að mig langar til að eignast barn en ég hræðist það. Ég vil ekki að barnið mitt lendi í þessu ógeði og ég sé ekki fram á að þetta breytist neitt.“

Pape segist oft velta fyrir sér að flytja úr landi en hann eigi orðið stóra og samheldna fjölskyldu hér og sé búinn að skjóta rótum á Íslandi.

„Við erum orðin um tuttugu, fjölskyldan hérna,“ segir hann. „Og þau eru fólkið mitt sem ég vil vera hjá. Ég fer samt heim til Senegal á hverju ári til að næra sálina. Það er alveg nauðsynlegt. Þar fellur maður inn í hópinn og það er enginn að niðra mann. Maður fær bara að vera það sem maður er í friði. Þess vegna vissi ég ekki að rasismi væri til fyrr en ég flutti til Íslands. Ekki misskilja mig, það er mjög mikið af góðu fólki hérna, geggjuðum sálum, en það er líka alltof mikið af fávitum.“

Sjá einnig: Kynþáttafordómar eru að aukast

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -