Við kvöddum margt gott fólk á þessu ári og tók Mannlíf saman nöfn nokkurra einstaklinga sem var minnst með hugljúfum kveðjum.
Árni Ólafur Ásgeirsson
Árni Ólafur Ásgeirsson kvikmyndaleikstjóri er lést í apríl eftir stutt veikindi. Árni leikstýrði fyrst stuttmyndum, og síðan kvikmyndunum Blóðböndum, Brimi og Lóa, þú flýgur aldrei einn, og hlaut fjölda verðlauna og tilnefninga fyrir. Síðasta kvikmynd hans, pólsk-íslenska myndin Wolka, var frumsýnd á árinu.
Blær Ástríkur Ástuson Ástráðsson
Blær Ástríkur Stefán Ástuson Ástráðsson táknmálsfræðingur og laganemi var 51 árs þegar hann lést í janúar. Blær var ein atkvæðamesta baráttumanneskja þjóðarinnar fyrir réttindum fatlaðs fólks.
Charlie Watts
Charlie Watts, trommuleikari stórhljómsveitarinnar Rolling Stones, lést í ágúst. Watts er talinn einn fremsti trommuleikari heims en var ekki jafn hrifinn af rokkstjörnulífinu og sumir aðrir í bandinu. Watts barði húðirnar fyrir Rolling Stones í nærri sextíu ár.
Christopher Plummer
Kanadíski leikarinn Christopher Plummer lést í byrjun febrúar, 91 árs að aldri. Þekktastur er hann líklega fyrir leik sinn í Tónaflóði, eða The Sound of Music, þar sem hann lék fjölskylduföðurinn von Trapp.
Desmond Tutu
Desmond Tutu, friðarverðlaunahafa Nóbels og fyrrverandi erkibiskups í Suður-Afríku, lést að morgni 26. desember níræður að aldri. Hann var þekktur fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnunni og ötull talsmaður mannréttinda.
Filippus prins
Filippus hertoginn af Edinborg og eiginmaður Elísabetar drottningar lést í Windsor-kastala þann 9. apríl. Filippus hefði orðið 100 ára í júní síðastliðinn. Hann var einn máttarstólpa bresku konungsfjölskyldunnar en hans aðalhlutverk var alla tíð að vera drottningarmaður.
Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson lést um miðjan apríl. Guðmundur var gjarnan kallaður Papa Jazz, og lék með fjölda djass- og danshljómsveita á ferli sem spannaði um 70 ár. Guðmundur kom fram opinberlega fram á níræðisaldur og spilaði jafn lengi inn á plötur.
Gunilla Bergström
Sænski rithöfundurinn Gunilla Bergström lést í ágúst, 79 ára að aldri. Bækur hennar um Einar Áskel, Alfons Åberg á frummálinu, hafa komið út á hátt í fjörutíu tungumálum. Bergström hlaut fjölda viðurkenninga á ferlinum fyrir bækurnar, sem hún myndskreytti sjálf.
Gunnar Birgisson
Gunnar Birgisson, fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri Kópavogs og Fjallabyggðar, lést í júní. Gunnar var oddviti Sjálfstæðismanna í Kópavogi frá 1990 og formaður bæjarráðs. Hann tók við starfi bæjarstjóra Kópavogs árið 2005 og gegndi því til 2009. Gunnar sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanes- og síðar Suðvesturkjördæmi frá 1999 til 2006. Hann var bæjarstjóri Fjallabyggðar frá 2015 til 2019.
Juan Joya Borja
Spænski grínistinn Juan Joya Borja lést í lok apríl, 65 ára að aldri. Fæst þekkja kannski nafn hans en mörg þekkja myndband með honum í sjónvarpsviðtali skellihlæjandi afar smitandi hlátri hefur farið geyst um netið. Myndskeiðið hefur verið textað á ýmsan hátt. Í myndskeiðinu sagði hann í raun og veru frá óförum sínum þegar hann var fenginn sem starfsmaður á veitingastað til að þvo tuttugu steikarpönnur með því að setja þær í sjóinn.
Jón Sigurbjörnsson
Jón Sigurbjörnsson, leikari og óperusöngvari, lést í lok nóvember, 99 ára að aldri. Jón steig sín fyrstu skref á leiksviði hér hjá Leikfélagi Reykjavíkur vorið 1949 og var svo fastráðinn við Þjóðleikhúsið í fjölda ára. Hann fór þaðan til Leikfélags Reykjavíkur, og var leikari og leikstjóri þar í áratugi.
Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, seðlabankastjóri og formaður Framsóknarflokksins, lést í september 75 ára að aldri. Jón var seðlabankastjóri frá 2003 til 2006 þegar tók hann við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Hann sat á ráðherrastóli til 2007 og var formaður Framsóknarflokksins á sama tíma.
Kurt Westergaard
Danski skopmyndateiknarinn Kurt Westergaard lést í júlí 86 ára að aldri. Westergaard er líklega þekktastur fyrir skopmyndir sínar af Múhameð spámanni sem birtust á síðum Jótlandspóstsins árið 2005. Teikningarnar ollu miklu fjaðrafoki og reiði víða.
Larry King
Bandaríski sjónvarpsmaðurinn Larry King lést 23. janúar. King var einn af þekkstustu sjónvarpsmönnum Bandaríkjanna og starfaði á fjölmiðlum í sextíu og þrjú ár. Frægastur var hann fyrir viðtalsþætti sína, Larry King Live, á sjónvarpsstöðinni CNN, sem voru í sýningu í tuttugu og fimm ár.
Mikis Theodorakis
Gríska tónskáldið Mikis Theodorakis lést í september, 96 ára að aldri. Samhliða tónsmíðum lét hann pólitík sig mikið varða og var einn af þekktustu andstæðingum herforingjastjórnarinnar sem tók völdin í Grikklandi 1967. Theodorakis var þó líklega þekktastur fyrir tónlistina við kvikmyndina um Grikkjann Zorba frá 1964.
Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, lést í ágúst á heimili sínu í Kópavogi. Styrmir hóf störf á Morgunblaðinu árið 1965 og varð ritstjóri sjö árum seinna. Hann starfaði í fjörutíu og þrjú ár á Morgunblaðinu. Styrmir skrifaði allnokkrar bækur um stjórnmál og lét hann geðheilbrigðismál sig ávallt miklu varða.
Svavar Gestsson
Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, lést á gjörgæsludeild Landspítala í janúar 76 ára að aldri.
Tom Moore
Sir Tom Moore, fyrrverandi kapteinn í breska hernum, lést af völdum COVID-19 í febrúar hundrað ára að aldri. Hann vakti athygli víða um heim í byrjun faraldursins þegar hann gekk í kringum heimili sitt í Bedfordskíri í Bretlandi og safnaði áheitum til styrktar heilbrigðiskerfinu. Honum tókst að safna upphæð sem samsvarar tæpum sex milljörðum íslenskra króna. Moore var aðlaður af Bretadrottningu fyrir framtakið í sumar.
Vilborg Dagbjartsdóttir
Vilborg Dagbjartsdóttir, skáld og kennari, lést í september 91 árs að aldri. Vilborg fæddist á Hjalla á Vestdalseyri þann 18. júlí árið 1930. Hún nam leiklist um skeið hjá Lárusi Palssyni en lauk síðar kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands. Einnig lærði hún bókasafnsfræði við Háskóla Íslands.
Meðfram ritstörfum starfaði Vilborg sem kennari við Austurbæjarskóla í 43 ár. Stór hluti höfundaverks hennar eru sögur handa börnum, bæði þýddar og frumsamdar. Hún var einn frumkvöðla að stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar og sat lengi í stjórn Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna. Hún hefur átt sæti í stjórn Stéttarfélags íslenskra barnakennara, Rithöfundafélags Íslands og Rithöfundasambands Íslands.
Vilborg gaf út sína fyrstu ljóðabók, Laufið á trjánum, árið 1960 og var hún þá ein af fáum konum hér á landi sem ortu atómljóð. Ljóð hennar hafa verið birt í erlendum safnritum og tímaritum á fjölda tungumála.
Þórunn Egilsdóttir
Þórunn Egilsdóttir fyrrum þingmaður lést í júlí, 56 ára að aldri. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri en banamein hennar var krabbamein. Þórunn var kjörinn þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi árið 2013 og var formaður þingflokksins 2015 og 2016.