Töluverður fjöldi lögreglu- og sjúkrabíla voru kölluð út við Vellina í Hafnarfirði nú í morgun en sjónarvottar sögðu sjúkrabílana hafa verið þrjá í hið minnsta. Guðjón S. Guðjónsson varðstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu sagði að um árekstur hefði verið að ræða.
„Það var árekstur vörubíls og fólksbíls,“ sagði hann en í fyrstu var talið að um alvarlegan árekstur hafi verið að ræða.
„Það leit úr fyrir það en svo þegar við komum á staðinn þá var þetta minniháttar,“ sagði Guðjón. Töluvert mikið hefur verið um árekstra undanfarið en færðin hefur verið afar slæm og akstursskilyrði erfið. Til að mynda fauk lítil sendibifreið út af Reykjanesbrautinni í gær og að sögn vitna var aftaka veður víða á brautinni.