Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Fór ekki í brjóstahaldara fyrr en á þingi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrún Ögmundsdóttir hefur alla sína ævi barist fyrir réttindum minnihlutahópa og þeirra sem minna mega sín. Í sumar hlaut hún fálkaorðuna og á sunnudaginn verður hún sæmd heiðursmerki Samtakanna ’78 fyrir baráttu sína. Hún segist þakklát fyrir viðurkenninguna en besta hrósið sé þegar fólkið sem hún hefur verið að berjast fyrir líti á hana sem eina úr hópnum.

Eitt af því sem fylgt hefur Guðrúnu í gegnum hennar pólitíska feril er það orðspor að hún eigi auðvelt með að vinna með fólki úr öllum flokkum og vera í góðum samskiptum við það. Það var til dæmis til þess tekið hvað hún og Davíð Oddsson ættu gott samstarf á sínum tíma. Hver er galdurinn á bak við það?

„Fólk er bara fólk,“ segir hún. „Ef við þorum að leyfa réttlætinu að tala og reynum að vera svolítið skýr og mennsk í því þá er mjög auðvelt að fá fólk í lið með sér. Ég vil meina að ef maður þorir að vera þar þá þarf ekkert að lúta einhverjum gamaldags lögmálum. Málin eru, að mínu viti, stærri en maður sjálfur og lúta ekki að mínu egói. Þetta snýst ekki um rassinn á mér heldur um það sem þarf að breyta og laga fyrir aðra. Það er mitt leiðarljós og hefur alltaf verið. Við Davíð vorum til dæmis mjög fínir félagar, fyrst þú nefnir hann sérstaklega. Hann var náttúrlega borgarstjóri þegar ég kom inn í borgarstjórn og ég auðvitað vann bara með honum. Það er alveg vandalaust fyrir mig að vinna með alls konar fólki, mér finnst fólk yfirleitt skemmtilegt og gott. Ég er ekkert að gera því upp einhverjar skoðanir fyrirfram, það verður alltaf að ræða málin.“

Í prófkjöri til alþingiskosninga 2007 missti Guðrún sæti sitt á listanum og hætti á þingi. Og segist þakka guði fyrir þá forsjón.

„Þetta var rétt fyrir hrun og ég þekki sjálfa mig það vel að ég veit að ég hefði aldrei getað staðið í því sem þar gerðist,“ segir hún. „Mér fannst það svo hræðilegt. Sem betur fer stoppaði forsjónin mig af svo ég þurfti ekki að taka þátt í því. Mér finnst ekkert mál að fólk sé ósammála en ég vil alltaf að fólk sé málefnalegt.“

„Auðvitað var ég hippi. Ég get svarið að ég fór ekki í brjóstahaldara fyrr en ég var komin á þing.“

Spurð hvort hún hafi ekki verið hippi á yngri árum hnussar Guðrún eins og þetta sé fáránegasta spurning sem hún hafi heyrt.
„Auðvitað var ég hippi,“ segir hún hneyksluð. „Ég get svarið að ég fór ekki í brjóstahaldara fyrr en ég var komin á þing. Þá sagði einhver góðlátlega við mig: „Guðrún, ertu ekki í brjóstahaldara?“ Ég svaraði neitandi, mér fyndist það svo leiðinlegt að ég þyldi það ekki. Þá sagði viðkomandi að hann héldi nú samt að ég ætti að fara í brjóstahaldara fyrst ég væri komin á þing. Ég hlýddi því en fór auðvitað úr honum um leið og ég var komin heim,“ bætir hún við og skellihlær.

Eftir þingsetuna varð Guðrún tengiliður ríkisins við fólk sem hafði verið vistað á vistheimilum þess sem börn og verið var að ræða um sanngirnisbætur til. Var það ekki erfið vinna?
„Þú getur rétt ímyndað þér það,“ segir hún og andvarpar. „Ég hálfdrap mig á þeirri vinnu, ég sé það núna. Þetta var alveg rosalega stórt verkefni og það skipti öllu máli að reyna að vinna það inn í sátt. Þarna var svo mikið af tilfinningum og sársauka og farið í stórt og mikið uppgjör. Ég er mjög sátt við útkomuna þótt peningar bæti auðvitað aldrei neina líðan. Þetta var í rauninni leið ríkisvaldsins til þess að biðjast afsökunar með því að bjóða bætur. Þetta voru ofboðslega mörg heimili og svo sem ekki allt slæmt sem þar gerðist en það má heldur ekki gleyma að þetta var í samræmi við hugmyndafræði þess tíma og sumt af því er erfitt að setja í nútímasamhengi. Þetta var dálítið einstigi sem maður þurfti að feta. Ég tók eitthvað á milli tólf og fimmtán hundruð viðtöl og gaf mig alla í að ná sambandi við skjólstæðingana. Mesta hrósið sem ég fékk fyrir þá vinnu var þegar einn skjólstæðingurinn sem var alveg á götunni spurði mig hvort ég hefði verið lengi á götunni. Ég sagði honum að ég væri svo heppin að ég hefði nú aldrei verið þar og þá sagði hann: „Já, en þú skilur okkur svo rosalega vel.“ Ég hef ekki fengið betra hrós en það, þetta jafnast alveg á við fálkaorðuna. Og það var þessi saga sem poppaði upp í hjarta mínu þegar var hringt í mig út af fálkaorðunni. Svona margar gullstundir átti ég í þessu starfi, það er ómetanlegt.“

- Auglýsing -

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -