Titan var byggður á vegum fyrirtækisins Ocean Gate og hefur vakið heimsathygli. Öryggi kafbátsins var dregið í efa en í viðtali sýnir forstjóri fyrirtækisins, Stockton Rush óhefðbundinn búnað bátsins sem stýrt var með leikjafjarstýringu. Tveimur sérfræðingum á vegum fyrirtækisins var sagt upp störfum eftir að þeir tjáðu áhyggjur sínar af öryggi kafbátsins.
Titan rúmaði fimm farþega og var á stærð við sendiferðabíl. Ferðin kostaði um 250 þúsund dollara eða rúmar 34 milljónir íslenskra króna. Fjórir farþegar fóru ásamt forstjóra Ocean Gate um borð í Titan til þess að sjá heimsfræga skipið Titanic með berum augum.
Stockton Rush var forstjóri fyrirtækisins Ocean Gate. Hann fæddist inn í efnaða fjölskyldu. Árið 1984 útskrifaðist hann úr Princeton háskólanum með verkfræðigráðu. Hann var giftur Wendy Rush sem var barnabarnabarn hjóna sem létu lífið um borð í Titanic. Stockton var 61 árs.
Bretinn Hamish Harding seldi ríkustu fyrirtækjum heims flugvélar. Fyrir ári fór hann í sex manna hópi í flug að jaðar geimsins sem fyrirtæki í eigu Jeff Bezos stóð fyrir. Í fyrra gaf fyrirtæki hans sérútbúna flugvél sem notuð var til að flytja átta blettatígra frá Namibíu til Indlands til þess að gera þar nýjan stofn en dýrið hafði verið útdautt í landinu síðan 1947. Hamish var 58 ára þegar hann lést.
Paul-Henri Nargeolet var einnig um borð í Titan en hann var einn helsti Titanic sérfræðingur heims. Hann leiddi sex rannsóknarferðir að braki skipsins og var á meðal þess hóps sem uppgvötaði brakið árið 1987. Paul var 77 ára.
Shahzada Dawood og 19 ára sonur hans, Sulemon Dawood fengu farmiða með Titan á lækkuðu verði eftir að nokkrir afþökkuðu boð forstjórans um skoðunarferð að Titanic. Shahzada var sagður hafa brennandi áhuga á Titanic en sonur hans fór óttasleginn með honum í ferðina í tilefni feðradagsins.
„Þeir voru nánir og helstu stuðningsmenn hvors annars. Báðir deildu þeir þessari miklu ævintýraþrá.“
Eldri systir Shahzada sagði bróður sinn hafa verið heltekinn af sögu Titanic. Hún segir Sulemon ekki hafa langað um borð í kafbátinn og verið óttasleginn en hafi samþykkt að fara í ferðina til þess að gleðja pabba sinn í tilefni feðradagsins.