„Það er engum bjóðandi hvorki barninu, fylgdarmanni, starfsfólki spítalans eða öðrum börnum sem þangað sækja þjónustu að athafnir sem þessar séu framkvæmdar innan veggja spítalans,“ segir í yfirlýsingu frá foreldrum langveikra barna og fatlaðra barna. Yfirlýsingin er í kjölfar aðgerða sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunnar og barnaverndar á Barnaspítala hingsins. Þar átti að framfylgja úrskurði í forsjármáli og flytja átti barn, sem var í lyfjagjöf á spítalanum, frá móður til föður. Í yfirlýsingunni kemur fram að langveik börn hafi þurft að þola óhjákvæmileg áföll innan spítalans og gríðarlega mikilvægt sé að þau upplifi öryggi innan spítalans.
„Foreldrar langveikra barna fordæma það með öllu að forræðismál séu látin spilast út innan veggja spítalans. Með vísun í málið sem varð upp á dagdeild barna 2. júní síðastliðinn þar sem lögfræðingi föður, starfsmanni sýslumanns og starfsmanni barnaverndar, var leyft að standa fyrir utan herbergið hjá barninu í 7 klukkutíma á meðan fréttamiðlar kepptust um að bera fregnir af málinu.“
„Langveik börn hafa orðið fyrir gríðarlega miklum áföllum innan veggja spítalans sem eru óhjákvæmileg, lyfja dagar fela í sér mikil óþægindi fyrir barn sem og fylgdarmann, oftast þarf að setja upp æðalegg sem getur verið mis óþægilegt, ekki má gleyma þeim aukaverkunum sem lyfin geta mörg valdið og síðan eru skoðanir og oft á tíðum erfið samtöl sem minnka ekki álagið.“ Að lokum fordæma þau vinnubrögð stjórn spítalans, fyrir það að hafa ekki gripið inn í aðgerðirnar. „Við fordæmum einnig að stjórn spítalans hafi ekki stigið inn í og vísað þessu út fyrir veggi spítalans.“