Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Fordæmalaus og framúrstefnuleg miðlun Íslendingasagna í Skagafirðinum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tvinna saman Örlygsstaðabardaga og nýjustu sýndar-og viðbótarveruleikatækni saman og bjóða ferðamönnum að taka þátt í bardaganum tæpum 780 árum eftir að hann fór fram.

Fyrir skemmstu opnaði sýningin 1238: Baráttan um Ísland í Skagafirðinum. Þar með var brotið blað í miðlun á sögu Íslands og í raun allri miðlun á sagnaarfi í heiminum, en ekki eru fordæmi fyrir sýnarveruleika (e. Virtual Reality) og viðbótarveruleika (e. AR) tækni sé nýtt með þessum hætti. Sýndarveruleikasetrið er stærsta sinnar tegundar á norðurlöndunum og fjárfestingin ein sú umfansgsmesta í afþreyingarferðaþjónustu hér á Íslandi, en í heild kostar verkefnið rúmlega 600 milljónir.

Sýndarveruleikasetrið mun vera stærsta sinnar tegundar á norðurlöndunum.

Sýningin fjallar um þá borgarastyrjöld sem fór fram hér á 13. öld og sérstaklega er fjallað um þá stóru bardaga sem einkenndu tímabilið og flestir fóru fram í Skagafirði.  Eftir linnulítil átök í áratugi endaði þetta tímabil sem kallað hefur verið Sturlungaöld með því að Ísland glataði sjálfstæði sínu til Noregskonungs.

„Þetta höfðar til allra aldurshópa, en ekki síst til yngri kynslóða sem eru vanari þessari framsetningu.“

„Með því að færa söguna í þetta form erum við að gera sagnarfinn okkar aðgengilegan á nýjan hátt og það hefur þegar sýnt sig að fólk upplifir mjög sterkt að það sé komið nær sögunni en það hefur komist áður. Þetta höfðar til allra aldurshópa, en ekki síst til yngri kynslóða sem eru vanari þessari framsetningu. En eins og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra sagði við opnun sýningarinnar, að þá er form sýningarinnar vel til þess fallið að vekja áhuga unga fólksins okkar á sögunni, ekki síður en að laða ferðamenn að svæðinu,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri sýningarinnar.

Áskell segir hugmyndina að þessu framúrstefnulega sýningarsetri í Skagafirðinum hafa fæðst í hjarta Reykjavíkur- nánar til tekið í Bankastræti, hvar auglýsingastofan H:N Markaðssamskipti er til húsa. ­„H:N Markaðssamskipti eiga heiður að hugmyndinni, framkvæmdinni og uppsetningu sýningarinnar. En stofan hefur unnið að verkefninu í tæplega þrjú ár ásamt samstarfsaðilum. Satt að segja átti enginn endilega von á að þessi klikkaða hugmynd fengi byr undir báða vængi í blábyrjun. Það er því óhætt að segja að ákveðinn ævintýraljómi hafi verið yfir þessu ferli frá a-ö,“ segir Áskell.

Hann heldur áfram: „Sýningin er einmitt einstaklega framúrstefnuleg, hvort sem miðað er við aðrar sýningar sem snúast um rótgróinn sagnaarf þjóðar eða hverskyns sýningar almennt.  Aðeins er notast er við allra nýjustu og bestu tækni sem völ er á í heiminum í dag við uppsetningu sýningarinnar og til að mynda er fyrsta 360°Ultra HD skjáinn í Evrópu að finna á sýningunni. Hún gengur þó ekki bara út á tækninýjungar heldur er einnig hægt að lesa texta um Sturlungaöldina og sjá endurgerðir af fatnaði og vopnum höfðinga þessa tíma.“

Áskell Heiðar segir sýninguna höfða til allra aldurshópa.

RVX Studios, sem hefur getið sér gríðar gott orð utan landsteinanna og smíðað ekki ómerkari upplifanir en í Everest kvikmynd Baltasars Kormáks, sá um alla framkvæmd og sköpun sýndarveruleikalausna í sýningunni. „Gestir eru sérstaklega ánægðir með hvernig tekist hefur til með grafíkhluta sýndarveruleikaupplifunarinnar, fólki finnst það beinlínis komið aftur til ársins 1238 á vígvöllinn þegar upplifunin nær hámarki,“ segir Áskell Heiðar.

- Auglýsing -

Stærð sýningarinnar hefur einnig vakið athygli gesta, en heildarrými sem unnið er með er um 1000 m2.

„Sýningin er sett upp í húsnæði sem áður hýsti m.a. verslun og mjólkursamlag KS.  Elsti hluti hússins er frá upphafi síðustu aldar.  Auk þess að opna áðurnefnda sýningu opnaði 1238 einnig veitingastað, minjagripaverslun og upplýsingamiðstöð á sama stað.  Á veitingastaðnum er eingöngu unnið með hráefni úr héraði á áhersla lögð á hollan og léttan mat.  Hér er því um að ræða nýjan áfangastað á Sauðárkróki, en von aðstandenda er að hann muni fjölga verulega þeim sem sækja staðinn heim.  Þegar hafa ferðaskrifstofur sett nýju sýninguna inn í sínar ferðir og skemmtiferðaskip hafa boðað komu sína í Skagafjörð í fyrsta skipti á komandi sumri.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -