Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Fordæmir starfsmannaleigur og segir þær „eitt af ömurlegum börnum óheftrar gróðadýrkunar”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Starfsmannaleigur eru eitt af ömurlegum börnum hins ægilega frelsisog óheftrar gróðadýrkunar sem fengið hafa að unga út afkvæmum um alla veröld,” skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á Facebook. Tilefnið er lögsókn gegn Eldum rétt og Menn í vinnu vegna nauðungarvinnu.

 

„Alþjóðavæðing á forsendum kapítalista gerir það að verkum að alltaf er hægt að sækja vinnuafl á en meiri afsláttarverði en boðið er upp á í heimalandinu,” skrifar Sólveig og bætir við; „Og við útsöluverðið bætist svo við enn meiri „afsláttur“ fólginn í því að hægt er að koma klónum í fólk sem talar ekki tungumál landsins sem það er flutt til og hefur oft mjög takmarkaða eða jafnvel enga ensku-kunnáttu, og nákvæmlega enga þekkingu á þeim lögum og reglum sem gilda um kjör og aðbúnað vinnuaflsins.

Það er eru mörg vandamál sem snúa að okkur sem vinnum vinnuna og höfum ekkert til að selja nema eigin vinnuafl, vandamál útbúin af sérstöku skeytingarleysi af þeim sem öllu ráða, eignastéttinni og margt sem við þurfum að berjast fyrir að breytist í samfélaginu. Og það að fyrirtæki eins og Eldum rétt geti eins og ekkert séð leitað til algjörlega forherts fólks eins og Manna í vinnu er að mínu mati eitt af þeim vandamálum, vandamál sem við getum staðið saman í að uppræta.”

Starfsmannaleigur grafa undan kaupi á íslenskum vinnumarkaði

Sólveig segir Eflingu telja starfsmannaleigur vera einstaklega óæskilegar. „Þær fela í sér frávik frá þeirri meginreglu að starfsmaður sé í beinu ráðningarsambandi við atvinnurekanda, og setja á milli þeirra þriðja aðila sem tekur skerf af laununum í sinn vasa. Því miður hefur þetta fyrirkomulag verið leyft í íslenskum og evrópskum lögum til að auðvelda atvinnurekendum að sækja sér vinnuafl út fyrir landsteinana þegar enginn samþykkir boð þeirra á Íslandi.

Starfsmannaleigur hafa líka þau áhrif að halda verði á vinnuafli niðri og veikja með því samningsstöðu þess verkafólks sem fyrir er í landinu; afhverju ættu eigendur atvinnutækjanna að borga góð laun fyrir unna vinnu ef þeir hafa ávallt aðgang að höndum sem tekið geta að sér verkin fyrir léleg laun? Og í raun eru starfsmannaleigur uppspretta ofur-arðráns; þriðji aðili kemst í stóran hluta af því sem manneskjan nær að vinna sér inn.”

- Auglýsing -

Hún bætir við: „Þetta hefur opnað á enn eina leið til að grafa undan kaupi og kjörum á íslenskum vinnumarkaði. Fólk er gagngert sótt frá fátækum svæðum sem alþjóðavæðingin hefur leikið grátt, og þar sem enskukunnátta er mjög takmörkuð. Engar kröfur eru gerðar á fyrirtæki að kynna starfsfólki réttindi sín.”

Lögsóknin þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur

Efling tilkynnti um lögsókn gegn Eldum rétt og Menn í vinnu í gær: „Eldum rétt og Mönnum í vinnu, ásamt forsvarsmönnum fyrirtækjanna, hefur verið stefnt fyrir meðferð þeirra á fjórum rúmenskum verkamönnum sem unnu hjá þeim í vetur,” segir í tilkynningunni. „Eldum rétt keypti vinnuafl hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu í janúar, og bar með því ábyrgð á að kjör verkamannanna og aðstæður væru sómasamlegar samkvæmt lögum um keðjuábyrgð frá árinu 2018.

- Auglýsing -

„Lögsókn gegn fyrirtækinu og framkvæmdastjóra þess, ásamt Mönnum í vinnu og forsvarsmönnum starfsmannaleigunnar, hefur nú verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.”

Ólöglegur launafjárdráttur og nauðungarvinna

Dómsmálið snýst meðal annars um ólöglegan launafjárdrátt. „Alla þá fjölbreyttu mínusa sem settir voru á launaseðlana,” skrifar Sólveig. „Einn af þeim var til dæmis fyrir World Class korti (sem margir starfsmenn könnuðust ekkert við að hafa notað). Þeim var sagt að kortið fengju þeir á sérstökum afslætti.” Frádrátturinn á launaseðlinum var hins vegar hærri en áskriftargjaldið á verðlista World Class.

„Hins vegar snýst það um veigameira atriði, sem er sú vanvirðandi meðferð og þvingunar- eða nauðungarvinna sem verkamennirnir sættu. Í ljósi þeirra aðstæðna sem þeir bjuggu við, og þess valds sem stjórnendur Menn í vinnu ehf höfðu yfir þeim, voru þeir „háðir boðvaldi og [settir] undir yfirburðarstöðu“ fyrirtækisins, líkt og segir í stefnunni. Þessi staða blasir við í hvert skipti sem íslensk fyrirtæki sækja sér fólk erlendis frá án þess að upplýsa þau um réttindi sín – en það er ekki á hverjum degi sem þessi yfirburðastaða er nýtt af sambærilegri grimmd.”

https://www.mannlif.is/4270

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -