Hulda Kobbelt er rúmlega sextug og búin að vera á óvinnufær síðan hún var 34 ára. Legslímuflakk. Vefjagigt. Tvenns konar taugasjúkdómar. MS. Krabbamein. Viðkvæmni í tengslum við rafmagn og ýmis efni. Hulda hefur upplifað ýmiss konar áföll í gegnum tíðina og það nýjasta er sonarmissir en eldri sonur hennar varð bráðkvaddur í sumar. Hann var 44 ára. Hér kemur brot úr helgarviðtali Mannlífs við Huldu.
Foreldrarnir með krabbamein
Krabbinn hefur fylgt fjölskyldunni undanfarna áratugi. Móðir Huldu greindist með brjóstakrabbamein þegar hún var um fertugt og lést áratug síðar. „Það var búið að taka af henni bæði brjóstin. Hún var búin að fara mörgum sinnum í geisla. Það var alveg hræðilegt að sjá hana í restina; það spruttu æxli alls staðar. Þetta var bara hræðilegt. Maður var með henni á hverjum degi að ganga í gegnum þetta. Ég vann þá í eldhúsi spítalans og hún var uppi þarna í restina og ég var hjá henni nóttina áður en hún dó. Hún dó svo seinni partinn næsta dag en ég var því miður ekki inni hjá henni þegar hún dó en pabbi var hjá henni. Maður var eiginlega að bíða eftir því að hún færi að fá friðinn.“
Jú, það eru þessi ár sem líða.
„Um páskana sex til sjö árum síðar buðum við pabba í mat og skildum ekki af hverju hann vildi ekki koma. Ég fór til hans annan í páskum en hann svaraði ekki strax. Ég bankaði og bankaði. Svo kom hann loksins til dyra í nátttreyjunni og mér brá þegar ég sá hvernig hann leit út. Ég sá svo hálffulla fötu af blóði við rúmið hans og var hann þá með svona óstöðvandi blóðnasir.“
Faðir Huldu fór í rannsóknir í kjölfarið og segir hún að blóðprufur hafi verið teknar og sagt að allt væri í lagi meðal annars með lifrina í honum. „Þeir sendu hann svo í meðferð. Ég sagði að pabbi væri veikur og þyrfti ekki að fara í meðferð; hann hefði örugglega ekki drukkið áfengi lengi því hann gæti það ekki. Þeir sendu hann hins vegar suður á Vog. Nokkrum dögum síðar þurfti að flytja hann á sjúkrahús þar sem kom í ljós að hann væri með krabbamein í lifur. Hann dó nokkrum mánuðum síðar.“ Það var í nóvember árið 1997.
Þögn.
„Það var líka erfitt að horfa upp á hann. Hann fann svo til. Hann var svo kvalinn.“
Þeir sendu hann hins vegar suður á Vog. Nokkrum dögum síðar þurfti að flytja hann á sjúkrahús þar sem kom í ljós að hann væri með krabbamein í lifur.
Hulda segir að faðir sinn, sem var vélsmiður, hafi verið ótrúlega duglegur. „Hann fékk stundum að fara heim á meðan hann var svona veikur. Hann vildi bara vera einn heima. Ég komst að því eftir að hann dó að hann hafði verið að smíða kertastjaka sem hann vildi að sjúkrahúsinu yrði gefinn eftir að hann dæi. Þetta var stór járnstjaki með þremur misháum örmum sem var í tísku á þessum tíma. Þetta smíðaði hann og var búinn að setja rauðar slaufur á þetta. Hann ætlaði að skilja eftir sig gjöf og var að dunda sér við þetta þegar hann var hress á milli.“
Hér má sjá viðtalið í heild sinni.