Helgi Tómasson lýsti í ævisögu sinni langri leið, mótlæti og þrotlausu striti, að því marki að verða einn dáðasti ballettdansari sinnar kynslóðar á alþjóðavísu.
„Ég er sennilega að verða fimm ára þegar pabbi kemur heim seint að kvöldi og hefur hátt. Þau mamma skiptast á orðum og ég skynja spennuna í andrúmsloftinu þar sem ég ligg í rúminu mínu án þess að skilja hvað fer fram. Nú þegar ég kalla fram minninguna veit ég að pabbi er vel við skál. Allt í einu stendur hann við rúmið mitt og á næsta andartaki er kodda kastað yfir andlitið á mér og þrýst að. Eftir nokkurt hark þrífur mamma í koddann, lyftir mér upp úr rúminu og segir: „Hlauptu upp að Hlíðarenda og vertu þar í nótt.” Og ég hleyp út í myrkrið þennan stutta spöl yfir túnið, berfættur og á náttfötunum,“ segir Helgi í ævisögu sinni.
Helgi átti í raun þrjá feður og þegar hann er unglingur og farinn að verða hrifinn af stelpum sagði móðir hans honum hver blóðfaðir hans væri. Helgi varð ósegjanlega glaður yfir því að Tómas skyldi ekki vera blóðfaðir hans því hann hafði aldrei verið honum góður. Haukur stjúpfaðir Helga reyndist honum mjög vel alla tíð og með honum eignaðist Dagmar, móðir Helga, soninn Guðjón Inga. Á fullorðinsárum kynntist Helgi svo hálfsystrum sínum föður megin.
Jakob Bjarnar blaðamaður á Vísi spyr Helga hvað vinum hans hafi fundist um þennan áhuga hans á ballett og þá segir Helgi:
„það hafi stundum verið erfitt fyrir mig sem ungur strákur; ellefu, tólf, þrettán, fjórtán ára. Erfiður aldur fyrir drengi og mér var mikið strítt: Að ég væri að dansa ballett sem væri bara fyrir stelpur. Kallaður stelpustrákur sem var mikið skammaryrði. En ég var ákveðinn í að gefast ekki upp.“
Danssýningin sem var greypt í barnsminni Helga
Örlögin haga því svo til að þegar Helgi er fimm ára gamall leggja leið sína til Vestmannaeyja þrír dansarar frá Danmörku og setja upp sýningu. Eyjamenn vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið.
„… þetta þekktist ekki á Íslandi. Friðbjörn einn af dönsurunum átti ættingja í Vestmannaeyjum og kom með þessa dansara til Vestmannaeyja. Ég sá þessa sýningu með móður minni. Ég smitaðist.“ Helgi segir svo frá að hann hafi setið dolfallinn í fangi móður sinnar og fylgst með.
„Ég varð víst mjög hrifinn af þessu, sagði mamma, og reyndi að herma eftir því sem ég sá á sviðinu. Stökk og sneri mér í hringi. Sem segir mér hversu mikilvægt það er að foreldrar fari með börn sín á listsýningar; leik, tónlist og dans. Maður veit aldrei hvaða áhrif það hefur á börn. En svona er þetta.“
Þegar foreldrar hans skildu fluttust þau mæðgin til Reykjavíkur og bjuggu í fyrstu við þröngan kost í höfuðstaðnum. Alltaf lifir þessi danssýning í samkomuhúsinu í Eyjum með Helga. Hann stekkur um gólf og stígur spor þegar tónlist heyrist í útvarpinu og ákvað mamma hans að senda hann í lítinn ballettskóla sem rekinn var af Félagi íslenskra listdansara í veitingahúsinu Röðli. Dönsk hjón sem hingað komu reyndust svo miklir örlagavaldar í lífi Helga, þau Erik Bidsted og þáverandi kona hans Lisa Kæregaard. Erik var ráðinn til að kenna við nýstofnaðan Listdansskóla Þjóðleikhússins 1952.
Helgi var staðráðinn í að halda sínu striki
Fórnir og sigrar manns
Ævisaga Helga Tómassonar er saga um sársauka og gleði, fórnir og sigra manns sem náð hefur lengra í list sinni en flestir aðrir Íslendingar.
Seigla og þrautseigja er það sem kemur í hugann þegar farið er yfir sögu hans sem er einstaklega áhrifamikil. Hann varð að leggja meira á sig en félagarnir þar sem hann var útlendingur og samkeppnin var gríðarlega hörð. Helgi gaf aldrei eftir enda elskaði hann að dansa og var til í að leggja allt í sölurnar til að ná árangri sem ballettdansari. Hann var aðeins 33 ára þegar honum var tjáð að hann myndi aldrei dansa að nýju svo þjáður og illa var hann farinn í baki en Helgi náði sér á strik með viljastyrk og þrotlausum æfingum.
Saga ævintýri líkust
Fjögurra ára strákur fer á danssýningu í Vestmannaeyjum, kemst undir handleiðslu dansks ballettmeistara, fer þaðan til Danmerkur og upp á hátind listgreinarinnar. Saga Helga Tómassonar, ballettdansara og stjórnanda, er ævintýri líkust.
Þegar hann er tíu ára gamall er Ballettskóli Þjóðleikhússins stofnaður og hann fær þar inngöngu, eini drengurinn á fyrsta árinu innan um nærri 200 stúlkur. Það er enn önnur tilviljun í lífi hans að kallaður skuli vera til mjög fær ballettmeistari frá Danmörku til að kenna Íslendingum að dansa. En það átti eftir að hafa afdrifarík áhrif á feril Helga.
Árið 1969 tók Helgi þátt í fyrstu alþjóðlegu ballettkeppninni í Moskvu og vann þar til silfurverðlauna en Mikhail Baryshnikov fékk gullið. Í kjölfarið komst Helgi í fremstu röð ballettdansara heims. Hann tók við stjórn San Francisco-ballettsins 1985 og undir handleiðslu hans öðlaðist dansflokkurinn viðurkenningu sem einn sá besti á alþjóðavísu.
Þegar sagan um minningar hans er lesin er með ólíkindum hvernig ungur strákur frá Íslandi tekst með eindæma atorku að verða einn fremsti ballettdansari heims. Aðeins fimm ára gamall hrífst hann af dönsurum úr Konunglega ballettflokki leikhússins í Kaupmannahöfn sem heimsóttu Vestmannaeyjar en þar bjó Helgi fyrstu ár ævi sinnar.
Átta ára hefur hann ballettnám við Listdansskóla Þjóðleikhússins og fimmtán ára er hann ráðinn sem sumar ballettdansari í Tívolí í Kaupmannahöfn. Ekki komst hann að hjá Konunglega leikhúsinu því sá skóli var einungis fyrir Dani á þeim tíma. Fyrir atbeina velgjörðarmanns hans í Kaupmannahöfn er honum boðin námsdvöl við þekktan bandarískan ballettskóla í New York.
Í fyrstu alþjóðlegu ballettkeppni heims sem haldin var í Moskvu hlaut Helgi silfurverðlaun sem varð til þess að honum var boðin staða aðaldansara við New York City Ballet sem var mikill heiður. Þar var Helgi næstu fimmtán árin og hlaut mikinn og einstæðan frama. Það var svo árið 1985 sem Helgi var ráðinn listrænn stjórnandi San Francisco-ballettsins en þá hafði hann lagt skóna á hilluna 43 ára gamall. Undir stjórn Helga hefur flokkurinn orðið að einum fremsta dansflokki heims.
San Francisco-ballettinn kom fram í fyrsta sinn í Hörpu á Listahátíð Reykjavíkur árið 2016.
Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri skrifaði í Morgunblaðið og hafði þetta að segja um sýninguna:
„heimsókn San Francisco-ballettsins nú er í okkar augum, sem höfum fylgzt með Helga Tómassyni frá upphafi, eins konar hápunktur“
Helgi tilkynnti að hann hygðist hætta störfum sem listrænn stjórnandi og aðaldanshöfundur San Francisco-ballettsins á næsta ári. Hann er 78 ára gamall og hefur verið listrænn stjórnandi San Francisco ballettsins í meira en 35 ár. Hann hefur verið í fremstu röð ballettheimsins, bæði sem dansari og stjórnandi, áratugum saman.
Heimildir:
Jakob Bjarnar. 2021. „Stráknum strítt en hann staðráðinn í að láta það ekki stöðva sig“ Visir. 24. maí.
Styrmir Gunnarsson. 2016. „Helgi Tómasson. Af innlendum vettvangi …“ Morgunblaðið, 28. maí.
Þorvaldur Kristinsson. 2017. Helgi – minningar Helga Tómassonar ballettdansara. Bjartur. Reykjavík.