Bjarni Benediktsson forsætisráðherra telur skort á raunsæi í umræðunni um útlendingamál.
Hann telur einnig að vandamál tengd málaflokknum verði eigi leyst með því að opna landamærin meira, eins og segir á mbl.is.
Bjarni tók sig til og sótti leiðtogafund Evrópuríkja í Bretlandi; staða innflytjenda- og hælisleitendamála voru á dagskránni á fundinum:
„Þar er öll Evrópa að taka sín regluverk til endurskoðunar,“ segir forsætisráðherra og telur það misjafnt eftir ríkjum hvers konar áskorun innflytjendamálin séu í raun og veru:
„En alls staðar eru menn sammála um að það er verið að reyna að verja getu kerfanna til þess að taka á móti hælisleitendum af mannúð. Það er gríðarleg áskorun vegna þess hversu miklir veikleikar eru í kerfunum. Víða eru kerfin að springa og það veldur ákveðinni skautun í umræðunni og menn þurfa einfaldlega að fara að sýna meira raunsæi.“
Bjarni er á því að vandamál tengd þessum málaflokki verði eigi leyst með því að opna landamæri enn meira:
„Mörg af vandamálunum sem eru hér að baki verða kannski ekki leyst með því að opna hliðin heldur meira með því að veita aðstoð heima fyrir, eins og til dæmis á við um þá sem eru að flýja frá Afríku. Þá var tónninn sá á fundinum að það mætti kannski gera meira í að styðja ríkin á heimavettvangi frekar en að leysa málin með því að opna Evrópu fyrir þeim sem eru að flýja þaðan.“