Heit umfræða hefur skapast á samfélagsmiðlum undanfarna daga í kjölfar fréttaflutnings af málefnum fatlaðs fólks í borginni. Fjölmiðlar voru þannig ekki fyrr búnir að greina frá gagnrýni Öryrkjabandalag Íslands á drög að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði, sem formaður bandalagsins vill meina að setji svo þröng skilyrði að fólk sem fær eingöngu örorkubætur hafi ekki möguleika á að uppfylla þau, þegar fréttir bárust af því að einstaklingi hefði vegna misskilnings starfsmanna á velferðarsviði Reykjavíkurborgar verið synjað um notendastýrða persónulega aðstoð.
Málin tvö hafa, eins og segir, vakið hörð viðbrögð og svör borgaryfirvalda, gert lítið til að lægja öldurnar. Enda auðvitað ekki boðlegt að synja fólki fyrst um notendastýrða persónulega aðstoð með þeim rökum að reglugerð félags- og jafnréttismálaráðherra um málið liggi ekki fyrir, þegar reglugerðin var samþykkt fyrir áramót og þurfa síðan að viðurkenna að alvöruástæðan fyrir því að ekki sé hægt að veita þessa aðstoð sé sú að reglur borgarinnar séu ekki enn tilbúnar. Hvað þá að svara fyrrnefndri gagnrýni Öryrkjabandalagins á drög að reglum um félagslegt húsnæði á þann veg að að tekjuviðmið muni að öllum líkindum hækka. Það sé bara ekki búið að ákveða hvað það verði.
Gremjuna í garð borgaryfirvalda má þó líka rekja til þess að það er ekkert nýnæmi að mál af þessu tagi komi upp á yfirborðið í Reykjavík. Langt í frá. Í gegnum tíðina hafa Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra oft þurft að hafa afskipti af málum þar sem álitið er að borgin, eða þjónusta henni tengdri, uppfylli ekki skyldur sínar gagnvart fötluðu fólki. Þannig skarst Sjálfsbjörg í leikinn vegna síendurtekinna kvartana frá notendum ferðaþjónustu fatlaðra um árið, ýmist af því bílar á vegum hennar mættu illa, skiluðu einstaklingum með þroskahömlun á ranga staði eða bílstjórar gleymdu fólki jafnvel í bílum ferðaþjónustunnar klukkutímum saman, svo dæmi séu tekin. Í skýrslu um málið var það niðurstaðan að Reykjavíkurborg hefði brugðist eftirlitsskyldu sinni.
Mannréttindi eru einfaldlega réttindi sem fatlað fólk hefur þurft að berjast fyrir allt sitt líf. Þegar þessi réttindi eru hvað eftir annað virt að vettugi, þegar hvað eftir annað er traðkað á þeim með þeim afleiðingum að fólk upplifir sig minna virði en aðra, annars flokks þjóðfélagsþegna, er þá skrítið að gremjan stigmagnist og fólk fari á einhverjum tímapunkti að missa þolinmæðina?
Þau svör sem borgin hefur gefið til að bregðast við ofangreindri gagnrýni og sú framkoma sem fötluðu fólki hefur verið sýnd er einfaldlega ekki ásættanleg. Fatlað fólk á rétt á því að búa við mannsæmandi aðstæður. Rétt á aðstoð. Rétt á sömu lífsgæðum og aðrir. Og ef hægt á að vera að taka mark á yfirlýsingum meirihlutaflokkanna í borgarstjórn um hversu mikils þeir meti manngildi og jöfnuð þurfa þeir að fara að sjá til þess að svo sé – og hætta að gefa fötluðu fólki fingurinn. Flestir eru nefnilega fyrir lifandis löngu orðnir þreyttir á innantómu orðagjálfri sem engar efndir fylgja.