Góðgerðarverkefnið Konur eru konum bestar hófst á fimmtudag í verslun Andreu Magnúsdóttur fatahönnuðar á Norðurbakka í Hafnarfirði, en hún er ein fimm kvenna sem standa að verkefninu.
Þetta er þriðja árið í röð og sem fyrr felst verkefnið í sölu á hvítum stuttermabol með áletruninni Konur eru konum bestar. „Sú setning snýst um það að við konur eigum að standa saman, frekar en að draga hvor aðra niður,“ segir Elísabet Gunnarsdóttir eigandi Trendnet.is. „Það er mikið um neikvætt hugarfar og umtal í samfélaginu og við viljum breyta því og gera samfélagið okkar að betri stað.“
Auk Andreu og Elísabetar standa Aldís Pálsdóttir ljósmyndari, Nanna Kristín Tryggvadóttir og Rakel Tómasdóttur grafískur hönnuður að verkefninu.
Í ár rennur ágóðinn til Krafts, en áður hefur Kvennaathvarfið og Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar notið góðs af framlagi vinkvennanna og fjölda einstaklinga um allt land sem keypt hafa bol og styrkt verkefnið.
Það var rífandi stemning og mikil gleði á fimmtudag eins og sjá má á myndum Aldísar. Sannkallaður kærleikur og kraftum hjá konum á öllum aldri.
Sjá einnig: „Samstaða íslenskra kvenna er mikilvæg“