Miðvikudagur 30. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

Frægir hnakkrífast um móðurmálið: „Þetta eru fárveikar forsendur!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frægir rífast nú á samfélagsmiðlum yfir kynjanotkun í íslenska tungumálinu og sitt sýnist hverjum þegar kemur að breytingum á tungumálinu, sem sífellt háværari krafa er um í samfélaginu. Meðal þeirra sem segja skoðuna sína á málinu eru Egill Helgason sjónvarpsstjarna, Karen Kjartansdóttir fjölmiðlakona, Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, og Jakob Bjarnar Grétarson stjörnublaðamaður.

Ástæða rifrildisins eru eftirfarandi fullyrðing Höskuldar Þráinssonar, prófessor emeritus í íslensku nútímamáli:

Það er ekki móðurmál neins að segja öll velkomin.“

Höskuldur segir jafnframt að það sé ekki einfalt verk að gera íslenskuna kynhlutlausa og að vert sé að velta því fyrir sér hvort eitthvert gagn sé af því að venja sig á að segja „öll velkomin“ ef karlkynið er út um allt í tungumálinu í almennri hlutlausri merkingu.

„Þetta er ekki eins einfalt og stundum er látið í veðri vaka, þetta er alls staðar í tungumálinu, þessi notkun karlkynsins,“ segir Höskuldur.

Karen er ekki hrifin af fullyrðingu Höskuldar og fann máli sínu til stuðnins gamlar blaðagreinar og auglýsingar þar sem „öll velkomin“ kemur fyrir. „Prófessor í málfræði heldur því fram að það sé ekki móðurmál neins að segja „öll velkomin“. Forfeður okkar og formæður virðast þó ekki hafa átt í neinum vandræðum með það orðalag. Alls ekki. Þessi íhaldssemi er óttaleg nýjung,“ segir Karen.

Egill telur málið síður en svo einfalt. „Það er svosem einfalt að segja öll velkomin. En að fara djúpt í málið með þessa breytingu – það þarf mikla málverkfræði til að það takist. En kannski verður það hægt á einhverjum kynslóðum. Ekki einu sinni áköfustu talsmennirnir (sic!) ráða við þetta. En svo má auðvitað segja að þetta komi gömlum körlum eins og mér ekki við – verðum hvort sem er dauðir,“ segir Egill.

- Auglýsing -

Jakob Bjarnar virðist ekki mjög hrifinn af þeirri hugmynd að breyta málhefðinni þannig að henti öllum kynjum. „Höskuldur vill vara við þeirri áráttu að lesa fordóma í kyn orða. Mér finnst merkilegt hversu auðvelt þessum hópi aktívista, sem eru auðvitað bara meðalskussar í málfræði eins og gengur, veitist að hrifsa til sín kennivaldið. Einfaldlega á altari einhverra meintra fordóma. Flestir virðast fá hland fyrir fuglshjartað við það eitt að verða hugsanlega vændir um slíkt,“ segir Jakob.

Atli Steinn Guðmundsson tekur í svipaðan streng. „Ég skil ekki hvað þetta vefst fyrir fólki, ómarkaða kynið í íslensku, þar sem rætt er um óskilgreindan hóp beggja kynna, er karlkyn. Það felur ekki í sér neitt kynjamisrétti, þetta er bara málfræðileg regla, mætti eins vera kvenkyn. Hljómar hryllilega hallærislega þegar stjórnmálamenn (fyrirgefðu, stjórnmálafólk) eru að slá um sig í annars illa stafsettum blaðagreinum með þessu öll-rugli, þetta er einfaldlega röng málfræði,“ segir Atli ákveðinn.

Þá tekur Egill aftur til máls og ítrekar þá skoðun sína að málið sé ekki einfalt. „Það er náttúrlega ekkert mál að segja „öll velkomin“ en þegar við förum dýpra í tungumálið er meiri vandi á höndum. Ég er ekki að andmæla þessu – bara að benda á að þetta er ekki hægt – ja, nema þá kannski á mjög löngum tíma. En þá gæti líka verið að að áhuginn sé horfinn,“ bendir Egill á.

- Auglýsing -

Eiríkur prófessor telur að ekki verði hægt að forðast þessa breytingu á tungumálinu. „En ég held að flestum sé ljóst að þetta er ekki einfalt og ég held að engum detti í hug að þetta sé breyting sem hægt sé eða skynsamlegt að keyra í gegn með einhverri stýringu að ofan. Það er hins vegar ljóst að þetta er að breytast og það býsna hratt. Vissulega getur það valdið alls konar ósamræmi – en það er nú ekki eins og tungumálið sé fullkomlega reglulegt kerfi fyrir,“ segir Eiríkur.

Og Jakob á síðasta orðið. „Það hljóta einhvers konar alhæfingar að búa að baki því að upplifun fólks sé með þeim hætti, vegna einhverra meintra fordóma, að rétt sé að umturna heilu málkerfi og í raun rústa því. Og það sé rétt. Við erum komin býsna langt með að ráðast á saklaus orð og útskúfa þeim úr málinu á forsendum upplifunar einhverra sem byggja á einhverjum ætluðum fordómum. Þetta eru fárveikar forsendur,“ segir Jakob og bætir við:

„Þessar alhæfingar um heilu hópana og upplifun þeirra hljóta eðli máls samkvæmt að vera vafasamar. Og upplifun hópsins, þar er engu hægt að slá föstu. Tökum idjótískt dæmi. 20 manna hópur Hafnfirðinga stígur fram og heldur því fram að Hafnarfjarðarbrandarar séu niðrandi, það sé þeirra upplifun og hópurinn fer fram á það, í nafni sinnar upplifunar að þetta sé tekið út af sakramentinu. Að Hafnarfjarðarbrandarar séu sagðir. Er þessi hópur þá, í nafni þess að vera einhvers konar þolendur, þar með komnir með kennivaldið? Jafnvel þó á daginn komi að Hafnfirðingum upp til hópa þyki þessir brandarar hreint ekkert særandi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -