Forsætisráðherra Frakklands, Édouard Philippe, kynnti í dag þær aðgerðir sem Frakkar hyggjast grípa til þegar útgöngubanni, sem gilt hefur um allt land síðan 17. mars, verður aflétt að hluta til þann 11. maí.
Meðal þess sem forsætisráðherrann kynnti voru fyrirmæli um að fólk bæri grímur í almenningssamgöngutækjum, einungis yrðu tíu börn í hóp á leikskólum og fimmtán nemendur í bekk í skólum þar sem allir nemendur bæru grímur.
Jafnframt tilkynnti hann að ríkisstjórnin stefndi að því að fjölga sýnatökum vegna Covid-19 upp í 700.000 á viku. Hann ítrekaði þó að útgöngubanni yrði ekki aflétt nema að fjöldi nýrra smita yrði færri en þrjú þúsund á dag þann 11. maí.
Í áætluninni er jafnframt gefið grænt ljós á að verslanir og aðrir þjónustuaðilar geti hafið starfsemi á ný eftir tvær vikur, að undanskildum veitingahúsum, kaffihúsum og verslunum í verslunarmiðstöðvum, í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar. Tveggja metra reglan yrði þó mikilvægari en nokkru sinni fyrr og auk þess að bera grímur í almenningssamgöngutækjum yrðu allir sem ynnu á vinnustöðum þar sem ekki væri hægt að framfylgja henni að bera grímur.
Franska þingið mun greiða atkvæði um áætlun ríkisstjórnarinnar í kvöld.